Lúðrasveit Þorlákshafnar 40 ára

40 ár af metnaðarfullum lúðrablæstri í Þorlákshöfn

Lúðrasveit Þorlákshafnar fagnar 40 ára afmæli í dag en hún var stofnuð árið 1984 og hefur starfað óslitið síðan og aldrei eins fjölmenn og nú, með 45 spilandi félögum. Verkefnin hafa verið gríðar fjölbreytt í gegnum tíðina og því ætlar lúðrasveitin að gera skil í sannkallaðri sunnlenskri stórtónleika afmælisveislu þann 13. apríl nk. Dagskráin er afar metnaðarfull og verulega fjölbreytt en með lúðrasveitinni munu koma fram Skítamórall, Karlakór Selfoss, Jónas Sig og Vigdís Hafliðadóttir sem jafnframt er kynnir. Tónlistin er frá ýmsum tímabilum og eftir ólíka höfunda sem allir eru með tengingu við Suðurland. Um er að ræða fjölda nýrra útsetninga Össurar Geirssonar. Miðasala hófst í dag, á sjálfan afmælisdag Lúðrasveitarinnar. Á þessum tímamótum langar okkur að deila með ykkur broti af sögu Lúðrasveitar Þorlákshafnar og vonum að þið hafið gaman af. 

Lúðrasveit verður til

Það má með sanni segja að Ásberg Lárenzínusson sé guðfaðir Lúðrasveitar Þorlákshafnar. Það var að hans frumkvæði sem hreppsnefndin í Ölfusi lagði fram fjármagn til kaupa á blásturshljóðfærum. Að hans mati vantaði tilfinnanlega lúðrasveit í bæinn til skemmtunar og menningarauka fyrir byggðarlagið. Ásberg minnist þess að 1. maí 1980 var Lúðrasveit Verkalýðsins fengin til að spila við hátíðarhöldin í Þorlákshöfn sem varð til þess að hann fór af stað með þessa hugmynd, að stofna lúðrasveit í Þorlákshöfn. Hreppsnefndin, með fulltingi Þórðar Ólafssonar, tók mjög vel í beiðnina og kaus þá þegar undirbúningsnefnd sem átti að kanna verð og fjölda þeirra hljóðfæra sem þörf var á og koma með tillögur. Í þessa nefnd voru kosin Bjarni E. Sigurðsson skólastjóri, Jóna Sigursteinsdóttir tónlistarkennari og Ásberg Lárenzínusson. Hljóðfærin voru pöntuð veturinn 1981 og komu til Þorlákshafnar vorið 1982. 

Ásberg Lárenzínusson og eiginkona hans Guðbjörg Sigfríð Einarsdóttir

Þá kaus hreppsnefndin aðra nefnd til að sjá um úthlutun hljóðfæranna og í henni sátu sem fyrr Jóna og Ásberg auk Ingimundar Guðjónssonar, en vegna fráfalls hans tók Halla Kjartansdóttir við sæti í nefndinni. Kennsla hófst á hljóðfærin 1982. Einhverjir byrjunarörðugleikar voru í upphafi og það tók smá tíma að búa til kjarnann sem þarf svo hægt sé að setja saman lúðrasveit. Haustið 1983 var fluttur á svæðið Englendingur sem var tónlistarrmaður og virkilega áhugasamur. Hann var ráðinn við tónlistarskólann og þá fór þetta allt að smella saman í framhaldinu. Englendingurinn var Róbert Darling. Á óformlegum fundi í lok árs 1983 var fyrsta stjórn Lúðrasveitar Þorlákshafnar sett saman, það voru þeir Torfi Áskelsson sem var formaður, Hjörleifur Brynjólfsson ritari og Davíð Davíðsson sem gjaldkeri. Meðstjórnendur voru Róbert Darling og Ásberg Lárntsínusson. Fyrsta æfing nýstofnaðrar Lúðrasveitar Þorlákshafnar fór fram 23. febrúar 1984. 

Ein fyrsta stjórn LÞ

Tónar fara að hljóma

Í fyrstu fundargerðarbók Lúðrasveitar Þorlákshafnar kemur fram að stofnfélagar sveitarinnar voru þau Svanhildur Helgadóttir, Gestur, Ásberg, Hjölli, Davíð, Hermann, Lóa, Róbert Karl, Sigursteina, Sóley Einars, Einar Freyr, Friðrik Pétursson, Adda María, Jóhannes Þórarins, Stefán Þorleifs, Torfi Áskels, Sigursteinn Sævarsson og Róbert Darling. Fleiri bættust í hópinn á fyrstu æfingunum eins og Sigga Kjartans og Imma Ketils sem fóru líka fljótlega að taka þátt í stjórnarstörfum.  Æfingastaðurinn var í Lýsubergi þar sem Tónlistarskólinn var til húsa fyrstu árin. 

Davíð Davíðsson einn stofnenda LÞ

Við spurðum Róbert Darling hvernig hefði gengið til að byrja með: ,,Fyrsta æfingin gekk mjög illa, þar sem nóturnar sem ég var með voru allt of erfiðar. Ég bað samt alla um að gefast ekki upp, því ég ætlaði að fara heim og semja og skrifa upp nokkur ný verk fyrir þau, sem ég og gerði. Eitt af þeim var kallað Næsta ár í Noregi, því við höfum alltaf verið stórhuga og stefnan var því strax tekin á ferðalag til útlanda. Fyrstu lögin, sem við spiluðum fyrir utan mín, voru Swingin Mister Moon, American Patrol og Guð vors lands. (Við þurftum að æfa þetta í heilt ár til að vera tilbúin með þau fyrir 17. júní)”.

Sigga Kjartans sem hefur spilað með frá upphafi var á sama máli varðandi fyrstu æfingarnar: ,,Það var mjög góð stemning þrátt fyrir að hljóðfærakunnáttan væri ekki uppá marga fiska og mikill hugur í fólki að þessi hugmynd og verkefni yrði til frambúðar í Þorlákshöfn. Maður hlakkaði mikið til þess að fara á æfingar og reyndar geri enn í dag 40 árum seinna.”  Það er gaman að geta þess að Sigga ásamt Hemma, Gesti og Róberti hafa varla misst af æfingu öll þessi fjörutíu ár og eru og hafa verið órjúfanlegur hluti af Lúðrasveit Þorlákshafnar. 

Hemmi, Sigga og Gestur hafa starfað með LÞ frá upphafi

Lúðrasveit í útrás 

Árið 1988 hélt Lúðrasveitin galvösk á heimaslóðir stjórnandans Róberts Darling, þegar hún fór í tónleikaferð til Englands eftir að hafa aðeins starfað í fjögur ár. Þá var auðkennisliturinn kominn, sá rauði en lógó Lúðrasveitarinnar var hannað af Róberti Karli Ingimundarsyni sem seinna var formaður til fjölda ára. Hver man ekki eftir gráu buxunum, hvítu skyrtunni, rauða bindinu og jakkanum góða. Það vantaði ekki stílinn á þessa fjögurra ára gömlu Lúðrasveit sem kom sá og sigraði í Englandi. Ferðin byrjaði í Milton Keynes, þar sem lúðrasveitin Stantonbury Brass tók á móti Þorlákshafnarbúunum. Með þeim var leikið á mörgum bæjarhátíðum þessa daga sem við hljómsveitin var þar. Þá var ferðinni heitið í smábæ í Devon, sem heitir Shobrooke, þar sem meðlimir LÞ sváfu á hermannabeddum í gömlu, mjög litlu félagsheimili. Þar tók hljómsveitin Crediton Town Band, sem bróðir Róberts spilaði með, á móti hópnum.  

Logoið var hannað af Róberti Karli Ingimundarsyni
LÞ í Englandi

Englandsferðin var virkilega vel heppnuð og eftirminnileg í alla staði, þarna voru margir hverjir að fara í sína fyrstu utanlandsferð. Við spurðum Helgu, sem þá var í kringum fermingaraldur, hvernig upplifunin hefði verið: ,,Þetta var geggjuð ferð með passlega kærulausu „fullorðnu fólki“. Þegar ég hugsa um þessa ferð þá er það fyrsta sem kemur upp er Sigursteina klemmd saman í hermannabedda í hláturskasti þar sem við krakkarnir vorum sofandi í íþróttasal. Hún kemur þarna hljóðlega inn til að vekja okkur ekki, sest í mitt rúmið og það smellur saman og allur salurinn vaknaði. Þessi ferð var ótrúleg upplifun, flest af okkur krökkunum var að fara í sína fyrstu utanlandsferð, fyrstu næturnar sváfum við inná breskum heimilum hjá breskum lúðralúðum það var mjög áhugavert”.

LÞ í Englandi

Alla tíð hefur verið lögð mikil áhersla á að hafa góða stemningu í hópnum, reglulega farið í óvissuferðir og allir sem þekkja einhvern í LÞ vita að þar eru haldin allra skemmtilegustu partýin, þar sem mikið er sungið og spilað á hin ýmsu hljóðfæri. 

Helga Halldórs og Hulda Gunnars í Englandi

Lúðrasveit í frumkvöðlastarfi

Lúðrasveit Þorlákshafnar er frumkvöðull að mörgu leyti en segja má að hún hafi verið á meðal þeirra fyrstu til að halda bæjarhátíðir sem eru nú haldnar í öllum sveitarfélögum. Hugmyndin kviknaði þegar þau voru í Englandsferðinni og komu fram á fjölmörgum bæjarhátíðum. Úr varð að fyrsta Þorláksvakan var haldin í lok maí 1988 og árlega eftir það langleiðina fram að aldarmótum í þeim tilgangi að safna fé fyrir hljóðfærakaupum og auka menningu. Á Þorláksvöku var slegið upp stærðarinnar tjaldi í Skrúðgarðinum í Þorlákshöfn og boðið upp á tívolí og fjölbreytta skemmtidagskrá frá morgni og fram á nótt heila  helgi. Í blaðagrein sem birtist eftir fyrstu Þorláksvökuna segir m.a.:  ,,Maraþon tónlistarvaka var haldin í Þorlákshöfn laugadaginn 28. maí. Hátíðin hófst klukkan 13 með því að tvær lúðrasveitir gengu um þorpið og mynduðu skrúðgöngur sem sameinuðust í skrúðgarðinum. Síðan magnaðist stemmningin eftir því sem leið og hljómlistin þagnaði ekki fyrr en tólf tímum siðar.

Úrklippa úr Morgunblaðinu eftir fyrstu Þorláksvökuna 1988

Það var Lúðrasveit Þorlákshafnar sem gekkst fyrir þessari miklu tónlistarhátíð og á hún allan heiðurinn. Róbert Darling stjórnandi sveitarinnar fékk þessa snjöllu hugmynd en engin hugmynd verður að veruleika nema til séu framkvæmdamenn. Lúðrasveitin er svo heppin að hafa í sínum röðum framkvæmdasama og jákvæða einstaklinga. Þó allir félagar og aðstandendur sveitarinnar hafi unnið vel sakar ekki að nefna þrjá sem lögðu nótt við dag síðustu vikurnar til að þetta gæti orðið að veruleika. Þessir heiðursmenn eru Hermann Jónsson og bræðurnir Torfi og Gestur Áskelssynir.” 

Frá Þorláksvöku
Frá Þorláksvöku
Frá Þorláksvöku
Frá Þorláksvöku
Andlitsmálun á Þorláksvöku

Um það leyti sem LÞ var búin að fylla sinn fyrsta tug þá réðst hún í metnaðarfullt verkefni undir dyggri stjórn Róberts Darling, sem þá stjórnaði líka bæði Söngfélagi Þorlákshafnar og skólakórum Grunnskólans í Þorlákshöfn ásamt því að gegna stöðu organista í Þorlákskirkju. Ákveðið var að taka upp plötu þar sem LÞ og kórarnir hans Róberts fluttu ýmis lög, þar á meðal lag eftir Róbert sem heitir Þorláksvaka. Þetta verkefni sýndi vel hvers Lúðrasveit Þorlákshafnar var megnug og gaf tóninn fyrir þau verkefni sem komu á eftir. 

LÞ á 10. áratugnum
Nýju rauðu úlpurnar

Tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlauna

Síðasta áratug og rétt rúmlega það hefur Lúðrasveit Þorlákshafnar vakið nokkra athygli fyrir öfluga starfsemi og á margan hátt óhefðbundið lúðrasveitarstarf sem og samstarf með þekktum listamönnum.

Það var haustið 2012 sem Lúðrasveitin fór að vekja athygli á landsvísu þegar samstarf hennar og Jónasar Sig tók á sig mynd með plötunni Þar sem himin ber við haf en upphafið má rekja til þess að stjórn lúðrasveitarinnar hafði samband við Jónas sem er frá Þorlákshöfn og spilaði um tíma á trommur í hljómsveitinni. Hugmyndin var að gera tónleika með honum þar sem hans þekktustu lög yrðu spiluð. Þessi hugmynd vatt sannarlega upp á sig sem endaði með 11 nýjum frumsömdum lögum, sem eru einhvers konar óður til sjávarþorpa 20. aldarinnar. Platan var tekin upp í Þorlákskirkju og gefin út og í  kjölfarið voru haldnir þrennir útgáfutónleikar í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn. Uppselt var á þá alla og gjörningurinn svo magnaður að hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna ásamt því að Jónas hlaut nokkrar tilnefningar einnig. Sumarið 2013 hélt allur hópurinn ásamt Jónasi og hjómsveit á Borgarfjörð eystra þar sem haldnir voru tvennir uppseldir tónleikar í aðdraganda Bræðslunnar.

LÞ við upptökur á plötunni Þar sem himin ber við haf 2012
Eftir vel heppnaða útgáfutónleika í Reiðhöll Guðmundar árið 2012

Óstöðvandi Lúðrasveit 

Það er óhætt að segja að þarna hafi lúðrasveitarmeðlimir komist á bragðið bæði hvað varðaði stóra og flókna umgjörð sem og samvinnu með öðrum. Svo stiklað sé á stóru hvað varðar tónleika og uppákomur má nefna Landsmót íslenskra lúðraveita sem haldið var í Þorlákshöfn 2013 sem fylgdi í kjölfar Þar sem himin ber við haf. Þar komu fram 150 lúðrablásarar ásamt 100.000 naglbítum, Fjallabræðrum og Jónasi Sig. Úr þessu varð ennþá frekari samvinna og tónleikahald LÞ og Lúðrasveitar Vestmannaeyja ásamt Fjallabræðrum og Jónasi Sig. Skemmst er að minnast ógleymanlegra tónleika á Hamingjunni við hafið 2022 þegar Lúðrasveit Þorlákshafnar og Fjallabræður komu fram ásamt Jónasi Sig, Röggu Gísla,  Sverri Bergmann og Unni Birnu Björnsdóttur. Annað skemmtilegt samstarf sem sannarlega hefur vaxið og dafnað er LÞ og Magnús Þór Sigmundsson en lúðrasveitin hélt nokkra tónleika um landið eingöngu með hans lögum sem Stefán Jakobsson söng listavel og voru sérstaklega útsett fyrir tilefnið. 

Ein af stórframkvæmdum LÞ
Glaðbeitt Lúðrasveit Þorlákshafnar
10 ára útgáfuafmæli plötunnar Þegar himin ber við haf

Lúðrasveitin hefur þennan áratug ýmist haldið jóla- eða nýárstónleika og fengið þá til liðs við sig þekkta söngvara eins og Valgerði Guðnadóttur, Jögvan Hansen, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Halldóru Katrínu og Valdimar. Allt hér framan talið er auðvitað bara brot af verkefnum lúðrasveitarinnar.

Ein stór fjölskylda

Meðlimir Lúðrasveitar Þorlákshafnar er einkar samheldinn hópur sem vílar fátt fyrir sér og tekst á við ný verkefni af krafti og tilhlökkun. Það er þess vegna sem hægt er að fara í hvert stórverkefnið á fætur öðru. Sveitin hefur átt því láni að fagna að eðlileg endurnýjun á sér stað, þ.e. ungt fólk kemur í sveitina þegar það hefur náð ákveðnum aldri og þá líka 3. stigi í tónlist. Mikill meirihluti hljóðfæraleikara LÞ eru aldir upp í Þorlákshöfn og hafa lært á sín hljóðfæri hjá Tónlistarskóla Árnesinga hvar LÞ meðlimir eiga nokkra kennara. Vissulega eru líka einhverjir sem hafa flutt að og kynnst þessum félagsskap og er öllum tekið opnum örmum enda lúðrafangið breitt og heitt. Flest búa í Þorlákshöfn en svo er líka töluverður hluti sem býr á höfuðborgarsvæðinu og einhverjir í nágrannasveitarfélögum og því má segja að lúðrasveitin sé líka brú til brottfluttra. Meðlimir sveitarinnar spanna allan aldur, allt frá 18 ára og að sjötugu, andinn er frábær og þrátt fyrir aldursbilið er ekkert kynslóðabil. Alþýðuhljómsveit sem þessi er þverskurður mannlífs og gantast lúðrasveitarmeðlimir oft með að í raun sé sveitin sjálfbær að einhverju leiti með hjúkrunarfræðinga, rafvirkja, kennara á öllum skólastigum, framhalds- og háskólanema, félagsfræðing, grafískan hönnuð, markaðs- og menningarsérfræðing, lækni, leikara, rakara, flugfreyju og svo mætti lengi telja.

30 ára afmælið í Hörpu
Alltaf fjör í Lúðró
Á góðri stundu á Borgarfirði eystra

Að öllum ólöstuðum má þakka Róbert Darling fyrir að halda svo þétt um stjórnenda sprotann öll þessi ár en hann var stjórnandi Lúðrasveitar Þorlákshafnar í 32 ár og er óhætt að segja að sá grunnur sem hann lagði sé grundvallarundirstaða lúðrasveitarinnar í dag. Róbert lagði tónsprotann á hilluna árið 2016 og hefur síðan þá spilað sem óbreyttur liðsfélagi á barítón horn í sveitinni. Snorri Heimisson og Guðmundur Óli Gunnarsson hafa síðan komið við sögu sem ráðnir stjórnendur. Ása Berglind Hjálmarsdóttir, trompetleikari og meðlimur LÞ frá barnæsku, hefur einnig stokkið inn sem stjórnandi hin síðari ár sem og Gestur Áskelsson, einn af stofnfélögum og saxafónleikari. Núverandi stjórnandi, Daði Þór Einarsson tók formlega við sprotanum í febrúar 2023 og er einróma ánægja með hans frábæra viðmót og góðu reynslu sem stjórnanda. Það er gaman að segja frá því að þegar Ásberg var í þessum vangaveltum um stofnun lúðrasveitar í Þorlákshöfn fyrir rúmum fjörutíu árum síðan þá var hann einmitt í góðu sambandi við Daða og nýtti hans ráðleggingar, en Daði var þá kornungur stjórnandi lúðrasveitar í Stykkishólmi þar sem Ásberg ólst upp við mikinn lúðrablástur. 

Róbert Darling á upphafsárum LÞ

Við viljum nota tækifærið og þakka öllu velgjörðarfólki Lúðrasveitar Þorlákshafnar þessi 40 ár, það er ómetanlegt að eiga ykkur að og geta gengið að því vísu að “fólkið sitt” fjölmenni á tónleika. Við viljum líka þakka öllum þeim fjölmörgu hljóðfæraleikurum sem einhvern tíman hafa verið félagar í Lúðrasveitinni og að sjálfsögðu bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin aftur! Það má alltaf dusta rykið af hljóðfærinu og slást í þennan skemmtilega og gefandi félagsskap. 

Sjáumst á stórtónleikum 13. apríl. Miðasala er hafin! 

Fyrir hönd Lúðrasveitar Þorlákshafnar 

Stjórn LÞ

Aðalbjörg Halldórsdóttir

Anna Margrét Káradóttir

Ágústa Ragnarsdóttir

Ása Berglind Hjálmarsdóttir

Ingibjörg Aðalsteinsdóttir

Þuríður Anna Róbertsdóttir