Það samfélag sem ekki getur umvafið þá sem helst þurfa stuðning er ekki burðugt. Íbúar í Ölfusi hafa í gegnum tíðina borið gæfu til að fagna fjölbreytileikanum og þar með talið að styðja við þá sem þurfa sérstuðning. Það er sannfæring okkar sem skipum D-lista að þátttaka í samfélaginu sé frumréttur hvers einstaklings sem hlúa þurfi að.
Sveitarfélagið Ölfus hefur markað sér þá stefnu að allir íbúar geti fundið hamingjuna í okkar góða samfélagi. Undanfarin ár hefur verið unnið skipulega að því að sú stefna nái fram að ganga með fjölþættum aðgerðum. En alltaf má gera gott betra og það erum við meðvituð um. Margt getur valdið fjölbreytileikanum og mikilvægt að sveitarfélagið mæti íbúum á þeirra forsendum. Í skipulagi menntakerfis, tilhögun náms o.fl. er ljóst að taka þarf mið af þörfum einstaklinganna en ekki stjórnsýslunnar.
Við frambjóðendur D-lista höfum mikla trú á mátt einstaklingsins og stöndum auðmjúk frammi fyrir fjölbreytileikanum. Við gerum okkur vel grein fyrir því að hver og einn þarf að fá tækifæri til að verða besta útgáfan af sjálfum sér – einstaklingunum sjálfum til heilla sem og samfélaginu í heild sinni. Að því sögðu þá sjáum við mörg tækifæri til að gera betur fyrir þá íbúa sem eru með stuðningsþarfir.
Í stefnuskrá okkar er m.a. að finna eftirfarandi áherslumál og er það okkar vilji að:
- leiða saman foreldra barna með mismunandi stuðningsþarfir, tómstundafélög og fulltrúa sveitarfélagsins til að tryggja framboð á hentugum námskeiðum í íþróttum og tómstundum.
- tryggja að allar stofnanir sveitarfélagsins verði með tryggt aðgengi fyrir alla.
- bjóða öryrkjum upp á gjaldfrjálsa líkamsrækt til heilsueflingar.
- ráðast í greiningu á þörfum fólks með fötlun sem verði síðan grunnurinn að stefnu í málaflokknum. Þar verði m.a. horft til mótunar á þjónustu íbúðakjarnans við Selvogsbraut, atvinnu með stuðningi, félagsstarfs og fleiri þátta.
- leggja áherslu á að efla þjónustu með tilliti til andlegrar heilsu barna.
Veruleikinn er sá að við erum öll alls konar. Ekkert okkar fer í gegnum lífið án óhappa og erfiðleika. Áskoranirnar leggjast þó misþungt á okkur. Hluti af mannlegri reisn er að fá stuðning til þess að lifa uppbyggjandi og gefandi lífi þrátt fyrir áskoranir. Við biðjum því um umboð íbúa í kosningum 14. maí nk. til að fylgja þessum mikilvægu málum eftir.
Erla Sif Markúsdóttir og Guðlaug Einarsdóttir,
Grunnskólakennarar og frambjóðendur í 4. og 5. sæti D-listans.