Áfram veginn á sviði fjölskyldu- og fræðslumála

Starfsmenn í framlínustörfum í þjónustu við börn, fólk með fötlun og aldraða þekkja sannarlega á eigin skinni hversu viðburðarík og erfið síðustu tvö ár hafa verið. Það hefur því verið ærið verkefni að fara fyrir fræðslunefnd og síðar fjölskyldu- og fræðslunefnd á kjörtímabilinu. Verkefnið hefur þó gengið vonum framar, enda hafa nefndarmenn gengið í takt allt fram að síðasta fundi og hefur samstarfið við fulltrúa minnihlutans verið virkilega gott. Stjórnendur og starfsmenn hafa mátt eiga við mörg snúin og erfið mál, og hafa nefndarmenn eftir fremsta megni reynt að styðja við eins og hægt er og að auka ekki á byrgðar framlínufólksins okkar. Hefur ekki mátt merkja annað en að fulltrúar minnihluta í nefndinni hafi verið sáttir með starf nefndarinnar á kjörtímabilinu. Þannig hafa, fram að síðasta fundi nefndarinnar, hvorki borist frá minnihluta tillögur um mál til umfjöllunar, formlegar breytingatillögur, frávísunartillögur eða bókanir um einstök mál. Aðeins einu sinni hefur komið til ágreinings milli meiri- og minnihluta nefndarinnar, það var nýverið þegar fulltrúar meirihlutans töldu tilefni til að vinna að greiningu og stefnumótun vegna faglegs starfs á nýjum leikskóla, vegna málefna fólks með fötlun og vegna málefna aldraðra. Taldi annar fulltrúi O-lista ekki tímabært að hefja slíka vinnu fyrr en að kosningum loknum og lagði fram um málið harðorða bókun.

Breytingar á málefnasviði og starfið á kjörtímabilinu

Breyting varð á þeim málefnum sem heyra undir nefndina með skipulagsbreytingum sem gerðar voru sumarið 2019, og í október 2019 kom nefndin í fyrsta sinn saman undir breyttum formerkjum. Breytt nefnd hafði aðeins fundað tvisvar sinnum þegar Covid 19 brast á og öll áhersla okkar framlínufólks fór í að sinna skjólstæðingum í skólum, félagsþjónustu og öldrunarþjónustu. Þótt öðru hvoru létti til þá var öll starfsemi á þessum sviðum undirlögð af álagi, takmörkunum og vernd viðkvæmra hópa allt fram til þessa árs. Eftir að takmörkunum létti í febrúar fóru dagleg störf í þessum stofnunum að léttast örlítið og skapaðist svigrúm og þörf á stefnumótum í tilteknum málaflokkum í tengslum við uppbyggingu nýs leikskóla, uppbyggingu nýrrar dagdvalar á Níunni samhliða auknum fjölda íbúa þar og vegna ábendinga um að huga þyrfti betur að málefnum fólks með fötlun. Þær ábendingar komu fram vegna breytinga á starfsemi og ásókn í starf VISS hér í Þorlákshöfn og vegna ábendinga í úttekt á starfi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings sem barst nú í vor. Af þeirri úttekt mátti ráða að til staðar eru fjölmargar áskoranir sem bregðast þarf við hvað varðar veitingu velferðarþjónustu í sveitarfélaginu. Vegna aðstæðna í samfélaginu var hvorki knýjandi þörf, né svigrúm, til að vinna stefnumótunarvinnu á þessum sviðum fyrr á kjörtímabilinu. Þegar þörfin blasti við lagði meirihluti D- lista í nefndinni til að ráðist yrði í greiningu á þessum málaflokkum með frekari stefnumótun í huga. Það er undirrituðum veruleg vonbrigði að þessu framfaraskrefi skuli hafa verið mætt með þeirri heift sem hefur mátt greina í bókunum fulltrúa O-lista og sameiginlegri grein frambjóðenda H- og B-lista um þessar tillögur. Við vitum þó að höfundar allir eru prýddir miklum mannkostum og mun það ekki rista djúpt þótt nú í undanfara kosninga sé af þeirra hálfu kastað fram stóryrðum um siðleysi, ólögmæti, vanvirðingu, tímasóun og að tillögur þessar séu ekki boðlegar. Við og frambjóðendur D-listans vitum að nú, og fyrst nú, liggur fyrir að hefja þarf þessa vinnu og viljum við því hefjast handa strax.

Ánægjulegra er að greina frá hversu margt jákvætt hefur unnist á þessum fjórum árum þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður, og má ekki síst þakka það metnaðarfullu og framsýnu starfi hjá t.d. stjórnendum og starfsmönnum skólanna sem hafa innleitt margar farsælar breytingar á þessu erfiða tímabili. Fjölskyldu- og fræðslunefnd hefur jafnframt haft aðkomu að mörgum jákvæðum breytingum, t.a.m. voru gerðar breytingar á möguleikum foreldra hvað varðar vistunartíma barna á Bergheimtum til að mæta betur þörfum foreldra, könnuð var afstaða foreldra til fyrirkomulags sumarleyfa á Bergheimum, aðkoma nefndarinnar að fjárhagsáætlanagerð hefur verið aukin, kallað var eftir upplýsingum um sálfræðiþjónustu hjá skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og fulltrúi skólaþjónustu kallaður á fund nefndarinnar til að veita upplýsingar um stöðu mála þar, lögð var fram aðgerðaráætlun varðandi daggæslu og leikskólaþjónustu,  fjallað var um fjölgun íbúa og áhrif þess á skóla sveitarfélagsins og því í framhaldinu beint til bæjarstjórnar að tryggja nauðsynlega innviði. Samhliða var því beint til bæjarstjórnar að mikilvægt væri að forgangsraða uppbyggingu nýs leikskóla og að endingu var skipaður starfshópur til að endurskoða skólastefnu sveitarfélagsins.  Þá studdi nefndin jafnframt við margar góðar tillögur skólastjórnenda sem hlutu síðan frekari afgreiðslur í bæjarráði eða bæjarstjórn.

Með breytingu á málefnasviðum nefndarinnar kom til þess að fjölmörg mál sem ekki heyra beint undir fræðsluhlutann voru tekin fyrir hjá nefndinni, þannig var t.d. fjallað um frístundastyrki barna, hvort áhættuhegðun unglinga hefði aukist samhliða covid takmörkunum, starf Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings var kynnt sérstaklega og fjallað var um möguleikan á sameiginlegu umdæmisráði barnaverndar með tilkomu nýrra barnaverndarlaga, þá var fjallað um mat áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn í tengslum við verkefnið Barnvæn sveitarfélög, sem Ölfus er aðili að.

Loks vann fjölskyldu- og fræðslunefnd með bæjarstjórn að útfærslu og framkvæmd fjölmargra veigamikilla mála á sviðinu, s.s. að hönnun og byggingu færanlegra kennslustofa við Bergheima, komið var á heimagreiðslum til foreldra, úrbætur voru gerðar á dagforeldrakerfinu til að styrkja það enn frekar, aflað var greinargerðar um rekstur leikskólans Bergheima,  komið að innleiðingu Hjallastefnunnar á Bergheimum og að stórauknu fjárframlagi og stefnumörkun varðandi upplýsingatækni í grunnskólanum.

Við viljum gera enn betur

Staða fjölskyldna í Ölfusi hefur verið virkilega góð síðustu fjögur ár. Þegar best lét á tímabilinu komust börn inn á leikskólann Bergheima rétt rúmlega eins árs gömul, en nú í síðustu innritun voru innrituð öll börn sem þá höfðu náð 18 mánaða aldri. Í málefnum leikskólabarna skipast þó fljótt veður í lofti og sveiflur í barnafjölda innan og milli ára kalla oft á viðbrögð, einkum nú þegar fjölgun íbúa hefur verið umfram björtustu væntingar. Við viljum tryggja með tímanlegri uppbyggingu nýs leikskóla og vönduðum faglegum undirbúningi að nauðsynlegir innviðir í fræðslustarfi séu til staðar þegar þeirra er þörf. Með nýjum og glæsilegum leikskóla í Vesturbergi skapast möguleikinn á að tryggja til frambúðar að unnt verði að miða innritunaraldur á leikskólunum í Þorlákshöfn við 12 mánuði. Þá er það jafnframt tillaga okkar að systkinaafsláttur verði stóraukinn og að tryggt verði að leikskólagjöld í Ölfusi verði hagstæð áfram. Við vitum líka að það þarf að tryggja að húsnæði grunnskólans anni auknum fjölda barna þar og munum við því ljúka hönnun að stækkun grunnskólans og ráðast í framkvæmdir þegar þeirra verður þörf. Við sjáum líka að úrbóta er þörf á þjónustu við eldri borgara og fólk með fötlun og stendur vilji okkar til þess að bregðast þar við með skjótum og skilvirkum hætti.

Sigríður Vilhjálmsdóttir
Formaður fjölskyldu- og fræðslunefndar og frambjóðandi í 9. sæti D-listans í Ölfusi

Guðbergur Kristjánsson
Varaformaður fjölskyldu- og fræðslunefndar í Ölfusi