Kæru íbúar Ölfuss!
Af áhuga fyrir jákvæðri þróun samfélagsins okkar hef ég ákveðið að bjóða fram krafta mína fyrir XB lista Framfarasinna í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég útskrifaðist með meistaragráðu í sjúkraþjálfun árið 2021 frá Háskóla Íslands og starfa í dag sem sjúkraþjálfari. Einnig leik ég körfubolta með Þór Þorlákshöfn og hef verið fyrirliði liðsins frá árinu 2014. Ég er 28 ára fæddur og uppalinn Þorlákshafnarbúi og þekki því samfélagið vel. Við litla en stækkandi fjölskyldan höfum fjárfest í íbúðarhúsnæði í Þorlákshöfn sem við fluttum nýlega í og hérna ætlum við að búa.
Bætt lýðheilsa blómlegra samfélag
Almennt tel ég að Íslendingar og þar með við íbúar Ölfuss séum vel meðvituð um mikilvægi heilbrigðra lifnaðarhátta. Það má hins vegar aldrei slaka á í þessum efnum og markmiðið er að allir séu meðvitaðir um þetta mikilvægi og hafi kost á því að uppfræðast og taka þátt í samfélagslega skipulögðu starfi sem snýr að lýðheilsu. Ég hef mikinn áhuga á þessu viðfangsefni og hef hug á því að þróa og efla starf í Ölfusi sem snýr að betri lýðheilsu og þar með blómlegra samfélagi.
Ég vil hvetja til almennar hreyfingar í samfélaginu fyrir fólk á öllum aldri. Það er mikilvægt að halda áfram að efla yngri flokkastarf í Þorlákshöfn til að börn fái fjölbreytta hreyfingu. Sama gildir raunar fyrir alla aldurshópa og því vil ég bæta úrræði fyrir fólk á miðjum aldri til að stunda hreyfingu, þá sérstaklega eftir erfið Covid ár.
Hreyfiþroski barna
Það er mjög mikilvægt að börn fái að kynnast íþróttum og íþróttastarfi snemma á sinni lífsleið. Ung börn eru mjög móttækileg fyrir leiðsögn og þátttaka í íþróttum stuðlar t.d. að eðlilegum hreyfiþroska. Þátttaka barna í skipulögðum viðurkenndum íþróttum og tómstundum er ekki síður ódýrasta og öflugasta forvörn sem hvert samfélag getur fjárfest í.
Í dag bjóðum við uppá þátttöku barna frá fjögurra ára aldri í skipulögðu íþróttastarfi, sem er frábært en ég vil ganga enn lengra og innleiða íþróttaskóla fyrir börn innan við 2ja ára, m.a. til að stuðla að eðlilegum hreyfiþroska.
Það þurfa að vera jöfn tækifæri fyrir öll börn í okkar samfélagi til að stunda hreyfingu sem hverju og einu barni hentar. Vissulega gæti það þýtt að auka þurfi framboð íþróttagreina en um leið og iðkendum fjölgar verðar til forsendur fyrir meiri fjölbreytileika. Huga þarf snemma að heilbrigðum lífsstíl og leggja þarf áherslu á að kenna börnum að stunda hreyfingu, frá leikskólaaldri og jafnvel fyrr.
Hreyfifærni á efri árum
Fyrir einstaklinga á eftirlaunum er mikilvægt að halda sér á hreyfingu og því vil ég einbeita mér að sinna því forvarnarstarfi og bæta líkamlega heilsu. Áframhaldandi heilsuefling fyrir eldri borgara með þjálfun er verkefni sem halda verður áfram með og efla. Það er einnig sérstaklega mikilvægt fyrir eldri borgara að stéttir og göngustígar séu í lagi og auðir allan ársins hring. Til að virkja eldri borgara til enn stærri þátttöku í íþróttastarfinu þarf að auka fræðslu um heilsueflingu fyrir þann hóp íbúa. Aðstaðan sem við eigum hérna er svo góð og það er bara samfélagslega bætandi eldri borgarar sæki reglulega sund og aðra líkamsrækt.
Afreksíþróttir og góðar fyrirmyndir
Það eru mikil verðmæti fólgin í því að styðja vel við bakið á afreksíþróttum. Þær krónur sem lagðar eru í afreksíþróttastarf eru ekki bara kostnaður fyrir samfélagið heldur má vel horfa á þær sem fjárfestingu í bættum lífsstíl og efldri heilsu íbúa. Með þessum hætti mun íþróttalíf í Ölfusi halda áfram að blómstra og börn munu hafa góðar fyrirmyndir til að líta upp til.
Kæru kjósendur, með því að setja X við B á kjördag munuð þið stuðla að efldri heilsu og bættum lífsgæðum í Ölfusi.
Emil Karel Einarsson, frambjóðandi í 7. sæti á B lista