Ekki í mínum bakgarði

Ég er Þorlákshafnarbúi, fædd og uppalin. Föðurfjölskyldan kom hér sem frumbyggjar upp úr 1951 og móðurfjölskyldan stuttu seinna, um 1964. Ég er rakinn Þollari í báða ættleggi. Hér ólst ég upp, át sand og þroskaðist og dafnaði. Þegar ég svo kom aftur heim hálf buguð og brotin eftir hálfan annan áratug erlendis var það Þorlákshöfn sem beið mín og greip mig í öryggisnetið sitt og kom mér aftur á fæturna. Hér er mitt fólk og mitt landslag. Hér slær hjartað. 

Það er því ekki að undra að það flökti í mér hjartað þegar ég heyrði af áformum um byggingu stórrar verksmiðju nánast ofan í ströndinni okkar. Svakalegt bákn með risa turnum sem munu óhjákvæmilega marka allt útlit þorpsins um langt skeið. Og ég skil áhyggjuraddir þeirra sem finnst þetta með öllu ótækt. Meira að segja þegar ég hugsa um það sem við sem Þorlákshafnarbúar græðum á þessu; hálaunastörf og tekjur í sveitarfélagið sem hlaupa á hundruðum milljóna á ári, verð ég að segja að það skiptir litlu máli í samanburði við að hafa svona stóra byggingu í bakgarðinum. 

Það sem skiptir mig hinsvegar máli er ábyrgð okkar sem jarðarbúa á að leysa það gífurlega vandamál í tengslum við þá hamfarahlýnun sem við stöndum frammi fyrir núna. Jörðin okkar brennur. Það er svo einfalt. Það er nóvember á Íslandi og 10 stiga hiti úti. Við vitum öll að þetta er ekki eðlilegt ástand og það hefur skapast vegna ofnýtingar okkar á auðlindum jarðarinnar og gífurlegrar neysluhyggju. Við Íslendingar, þó fáir séum, eigum þar stóran þátt í máli og getum ekki lengur skorast undan að taka ábyrgð á gjörðum okkar. 

Á nýlokinni Loftslagsráðstefnu var samið um sérstakan loftslagsbótasjóð til handa fátækari ríkjum heims sem illa hafa orðið úti vegna loftslagsbreytinga. Til stendur að auðugri ríki leggi til hundruði milljarða árlega til sjóðsins til að bæta það tjón sem loftslagsváin hefur valdið fátækari ríkjum og ríkari lönd eiga mestan þátt í að skapa. Hinsvegar það sem misfórst á ráðstefnunni var að komast að rótum vandans; raunhæfum leiðum til að minnka útblástur gróðurhúsloftegunda. Við ætlum sem áður að borga okkur út úr vandanum. 

Við byggjum með steypu, og steypa er einfaldlega besta byggingarefni sem til er. Búin til úr vatni, möl, sandi og sementi. Og það eru ekki bara hús og byggingar sem við reisum úr steypu heldur líka mannvirki eins og brýr, jarðgöng og stíflur. Við erum ekkert að fara að hætta að steypa í bráð. En staðreyndin er sú að steypuframleiðsla er ábyrg fyrir um 5-8% af losun kolefna á heimsvísu. Og það kemur að 90% frá framleiðslu sementsins. Það hefur verið kapphlaup í áraraðir að finna leiðir til að gera steypu umhverfisvænni, að finna leið til að draga úr þessum gífurlega skaðlegu áhrifum. Og nú erum við komin með hluta af lausninni.

Hér á Íslandi erum við í þeirri sérstöðu að eiga fullt af móbergi, sem er ákjósanlegt sem íblöndunarefni í sementið til að draga úr magni sements í steypu. Hingað til hefur flugaska verið notuð sem íblendiefni, en flugaska er affallsefni, sem kemur til við kolabrennslu. En við sem á þessari jörð búum getum einfaldlega ekki haldið áfram að brenna kolum. Hér kemur þá móbergið til. Það er náttúrulegt  efni, sem er einfalt að vinna og krefst ekki mikillar orku til vinnslu og er hægt að blanda því að 20% við sementið, sem þá minnkar þörf á sementi um 20%. 

Með kolefnishlutlausri vinnslu frá námu og að löndun erum við að tala um sparnað á losun kolefnis sem í alvörunni skiptir heiminn máli. Það má vera að það komi ekki inn í loftslagsbókhaldið hér á Íslandi en það skiptir virkilega máli á heimsvísu – og það er lykilatriðið! Við höfum hér tækifæri til að vera ekki þau sem krefja fátækt fólk í fjarlægum löndum um að ganga á sínar auðlindir og brenna fleiri kol og búa í skugga stórra verksmiðja, heldur getum við verið þau sem tökum á ábyrgði, minnkum vandann og komum fram með lausnina. 

Við getum hugsað um framtíð barnanna okkar hér í Þorlákshöfn sem þurfa að alast upp með stóra verksmiðju í túnfætinum. En við getum líka hugsað um framtíð allra barna og tekið þennan fórnarkostnað á okkur til að í alvörunni gera eitthvað sem skiptir máli. Sem einstaklingar er gott og blessað að flokka plast og keyra minna og fljúga ekki en það framlag sem við sem einstaklingar leggjum til er ekkert á miðað við það sem gerist þegar stóru fyrirtækin þurfa að breyta framleiðsluháttum sínum á heimsvísu. 

Við erum líka í þeirri stöðu að geta krafist þess að stórt fyrirtæki eins og Heidelberg Materials geri vel við okkur fyrir þann fórnarkostnað sem við erum að færa sem góðir heimsborgarar. Hönnun og ásýnd verksmiðjunnar yrði að vera eins falleg og hægt er og nytsamleg sem útsýnispallar, kennileiti og grunnur fyrir listamenn og ljósasýningu. Aðgengi að ströndinni yrði bætt fyrir okkur á þeirra kostnað. Aðgangur sem akkúrat núna er ekkert til að hrópa húrra fyrir, það þarf að vaða í gegnum hafsjó af áburðapokum og innakstur bannaður skilti til að komast á ströndina eins og er.  Við erum með móbergið, við erum með höfnina, við getum gert þá kröfu að fyrir þessar auðlindir sé greitt hámarksverð. 

Við getum ekki endalaust gargað „ekki í mínum bakgarði.“ Í hvers bakgarði þá?

Höfundur er íbúðareigandi í Þorlákshöfn og starfar sem sérfræðingur á Mannauðssviði hjá Eignarhaldsfélaginu Hornsteini.