Samfélagið okkar

Ég finn mig knúinn til þess að setja niður nokkur orð um þá umræðu sem á sér stað í samfélaginu okkar. Þá sérstaklega á samfélagsmiðlum. Umræðan er af einhverjum ástæðum hætt að snúast um málefni heldur keppast netverjar við að níða niður fólk sem hefur ekkert unnið sér til saka annað en að hafa boðið fram krafta sína til þess að  starfa samfélagi okkar til heilla. Skapa vöxt og uppbyggingu. Auka þjónustu- og atvinnuframboð. Níða fólk sem er jafnvel fætt og uppalið hér, á börn, maka, foreldra og jafnvel ömmur og afa hér. Hvert erum við sem samfélag að fara?

Virðuleg kona hér í bæ sem hefur unnið í Grunnskólanum okkar lengi sagði t.a.m. að við í meirihlutanum værum „hryllilegt fólk“. Hún reyndar eyddi því eftir að hafa verið bent á hversu óviðeigandi þessi ummæli væru, en önnur álíka ummæli sem hún hefur látið falla standa enn. Internetið gleymir engu.

Önnur kona, sem vill svo til að er móðir vinkonu dóttur minnar, henti í status þar sem hún talar um að spilling í Þorlákshöfn hafi aldrei verið jafn „áberandi“. Að það sjáist hverjir hafa það gott og geti leyft sér. Að við séum strengjabrúður sem gerum það sem okkur er sagt og séum tilbúin til að gera allt fyrir peninga því græðgin sé allsráðandi. 

Ég gæti að sjálfsögðu haldið lengi áfram því dæmin eru mun fleiri en ég held að allir átti sig á því hvað ég er að fara. Það hljóta allir að sjá að þetta geti ekki talist eðlileg orðræða. Ég vona líka að allir átti sig á að við sem sitjum í bæjarstjórn gerum þetta af hugsjón en ekki fyrir brúna bréfpoka fulla af peningum.

Samfélagið okkar er byggt af fjölbreyttum hópi fólks. Eðlilega höfum við ekki öll sömu skoðun. Sem betur fer. En við verðum að geta átt í málefnalegum rökræðum án þess að hjóla í persónur og leikendur. Við erum öll íbúar hér og hluti af þessu magnaða samfélagi. Við getum haft mismunandi framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið, mismunandi skoðanir á málefnum, mismunandi gildi og lífssýn en við erum öll sammála um að byggja hér upp fyrirmyndar samfélag sem við getum verið stolt af. Fjölbreytt og skemmtilegt samfélag þar sem hvergi er betra að búa og ala upp börn. Kraftmikið samfélag sem iðar af lífi. Samheldið samfélag.

Ég er með breitt bak og tek svona ummæli ekki inn á mig. Þau dæma sig sjálf að mínu mati. En ég á, blessunarlega, fjölskyldu og vini hér sem eiga mörg hver erfitt með að horfa upp á umræðuna enda vita þau hvaða mann ég hef að geyma.  

Berum virðingu fyrir hvert öðru, vöndum okkur og höldum áfram að byggja upp samfélagið okkar!

Grétar Ingi Erlendsson 
Íbúi í Þorlákshöfn og bæjarfulltrúi í Ölfusi.