Sunnlendingar hafa á seinustu árum séð hvað framkvæmdir sem styrkja miðbæi geta eflt bæði mannlíf, menningu og ferðaþjónustu. Vart er ofsagt að segja að vel lukkaðir miðbæir auki hreinlega lífsgæði íbúa. Nú er komið að okkur hér í Þorlákshöfn því undir forystu D-lista hefur verið samið um uppbyggingu á nýjum miðbæ. Samningurinn ber það glögglega með sér að framkvæmdinni er fyrst og fremst ætlað að styðja við uppbyggjandi mannlíf og skapa betri jarðveg fyrir vaxandi þjónust
Við ætlum að nota tækifærið og efla mannlíf og menningu
Hinn nýi miðbær mun rísa norðan Selvogsbrautar. Hann mótast af 200 metra langri göngugötu þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu á skrifstofum, verslunum, þjónustu og íbúðabyggð auk nauðsynlegra opinna svæða og torga sem styðja við mannlíf og menningu.
Ætlum að byggja fjölnota menningarsal í miðbænum
Þá er ánægjulegt að segja frá því að í samræmi við áform D-lista um eflingu menningar og mannlífs hafa aðilar samkomulagsins rætt mögulega samvinnu um byggingu fjölnota menningarsalar í hinum nýja miðbæ sem ef af yrði myndi m.a. nýtast fyrir tónlistarviðburði og til sýninga á listmunum, ljósmyndum, safnmunum og fl.
Ekki eftir neinu að bíða
Áfangi sem þessi kemur ekki úr engu. Til grundvallar liggur sú velgengni sem nú einkennir okkar góða bæ og það jákvæða umtal sem tekist hefur að skapa. Í framhaldi af uppbyggjandi samtali milli sveitarfélagsins og Arnarhvols, um m.a. þá miklu uppbyggingu sem hér er að eiga sér stað lýsti fyrirtækið Arnarhvoll áhuga sínum á að standa að metnaðarfullri uppbyggingu nýs miðbæjarkjarna hér í Þorlákshöfn. Við sem hér búum þekkjum vel hversu öflugt mannlífið í Þorlákshöfn er. Nýi miðbærinn okkar mun án vafa bjóða upp á umhverfi sem laðar til sín fólk, eykur þjónustustigið og eflir mannlíf og menningu. Svo mikið er víst að við undirrituð erum bjartsýn á að við getum lokið hönnun og skipulagi á þessu svæði núna innan skamms og fljótlega upp úr því geti framkvæmdir hafist.
Til marks um sterka stöðu samfélagsins hér
Það er til marks um styrk sveitarfélagsins í dag að með samkomulaginu skuldbindur byggingarfélagið sig til uppbyggingar hins nýja miðbæjar á grundvelli deiliskipulags sem aðilar vinna í sameiningu þannig að á svæðinu rísi eftirsóknarverður, hagkvæmur og aðlaðandi kjarni sem styrki Sveitarfélagið Ölfus í sessi sem eftirsóknarverðan búsetukost. Skýrt er tekið fram að skipulagsvaldið er eftir sem áður allt á hendi sveitarfélagsins eins og vera ber. Byggingaraðilinn greiðir hinsvegar allan kostnað við framkvæmdina þar með allan kostnað við gatnagerð, götulýsingu, yfirborðsfrágang og fl.
Við biðjum um umboð til að halda áfram að gera gott betra
Ef við fáum til þess umboð munum við frambjóðendur D-lista fylgja þessu máli fast eftir. Við ætlum að horfa til þess að skapa fallegan og mennskjulegan miðbæ sem verður vettvangur fyrir íbúa og gesti til að koma saman til að njóta samveru hvert við annað. Í því samhengi þarf að líta til þess að nýi miðbærinn okkar verði með frjórri flóru af veitingastöðum, verslunum og tengdri starfsemi.
Um leið og við óskum bæjarbúum til hamingju með miðbæinn sem brátt mun rísa biðjum við um stuðning til að halda áfram að gera gott betra.
Gestur Þór Kristjánsson skipar 1. sæti D-lista
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir skipar 2. sæti D-lista
Grétar Ingi Erlendsson skipar 3. sæti D-lista
Erla Sif Markúsdóttir skipar 4. sæti D-lista