Til hamingju með daginn launafólk

Í 133 ár hafa launamenn notað 1. maí til að fylgja eftir kröfum sínum um réttlæti og réttlátt samfélag. Á þessum tíma hefur áherslan breyst enda víða náðst mikill árangur. Í dag leitar hugur margra á frídegi verkamanna til atvinnumála.

Atvinnulífið í Ölfusi er í dag öflugt og tækifærin fjölbreytt. Undir forystu D-lista hefur verið fast sótt á síðustu árum sem skilað hefur fjölmörgum tækifærum. Ný fyrirtæki hafa valið sér Ölfusið sem framtíðar staðsetningu og rótgróin fyrirtæki hafa sótt Ölfusið og þá ekki síst Þorlákshöfn sem er í dag eitt eftirsóknaverðasta svæði á landinu öllu til fjárfestinga og sóknar í atvinnulífinu. Þetta skilar okkur nýjum tækifærum og öflugra samfélagi.

Nútímasamfélag krefst fjölbreytts atvinnulífs og þar getur jákvæð aðkoma sveitarfélagsins haft mikið að segja. Vegna þess beitti D-listinn sér fyrir því að stofnað yrði sérstakt stuðningsnet fyrir atvinnulífið sem fékk nafnið Ölfus Cluster. Mál þeirra sem vinna að eflingu atvinnulífs og þá sérstaklega þeirra sem sjálfir eru að koma upp rekstri er að það hafi gjörbreytt allri aðkomu til hins betra.

Nú er svo komið að aldrei í sögunni hafa verið fleiri atvinnutækifæri í sveitarfélaginu. Nægir þar að líta til fjölmargra laxeldisverkefna, gróðurhúsauppbyggingar, fyrirhugaðri framleiðslu skógarplantna, umhverfisvænnar framleiðslu á íblöndunarefni í sement, hátækni matvælaframleiðslu á grunni smáþörungaræktar, áform um byggingu glæsilegs hótels við golfvöllinn og lengi má áfram telja. Samhliða þessu hefur verið stofnað fjarvinnuver og skrifstofuhótel sem nýtist vel þeim fjölmörgu sem stunda fjarvinnu auk ríkulegs stuðnings við nýsköpun.

Forsenda þess að atvinnulífið haldi áfram að eflast er öflug uppbygging innviða. Þar hefur náðst undraverður árangur á skömmum tíma. Í upphafi kjörtímabils náðist með einbeittum vilja að tryggja fjárframlög ríkisins til fjárfestingar í nýjum dráttarbáti sem eflt hefur höfnina mikið og aukið viðbragðsgetu hennar. Þá tryggði traustur undirbúningur eitt stærsta framlag ríkisins til hafnarmála þegar samningar náðust um stóreflingu hafnarinnar með um 5 milljarða fjárfestingu. Að þeim framkvæmdum loknum mun höfnin geta tekið á móti allt að 200 metra löngum skipum, þar með töldum skemmtiferðaskipum. Sú uppbygging mun þannig auka enn á fjölbreytt og öflugt atvinnulíf.

Frambjóðendur D-lista vita að það er hægt að gera gott enn betra í uppbyggingu atvinnulífsins. Fáum við til þess umboð bæjarbúa viljum við byrja strax að undirbúa næsta áfanga í stækkun hafnarinnar. Skal þar horft til stækkunar til norðurs. Við ætlum líka að halda áfram markvissu samtali við rekstraraðila farþegaferja sem hafa áhuga á að sigla milli Þorlákshafnar og meginlands Evrópu. Við vitum að á þeim forsendum getum við eflt Ölfusið allt sem ferðaþjónustusvæði og spennandi áfangastað.

Á seinustu árum höfum við séð mikla uppbyggingu á atvinnuhúsnæði. Mál margra er að nú sé búið að rjúfa þá stöðnun sem einkennt hafði árin áður en hér í Þorlákshöfn hafði vart risið atvinnuhúsnæði í áratugi. Þessi mikli kraftur í atvinnulífinu og rík trú á framtíðina hér kallar á framboð á góðum lóðum til atvinnureksturs. Því viljum við fylgja fast á eftir án tafar.

Nýsköpun einkennir sókn atvinnulífsins hér í okkar góða sveitarfélagi. Við erum að sjá orku breytt í smáþörunga, vatn nýtt til framleiðslu á matfiski, jarðefni  nýtt til byggingagerðar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lengi má áfram telja.  Þetta verðum við að efla og þar skiptir Ölfus Cluster sköpum.

 Frambjóðendur D-lista eru stoltir af sterkri stöðu.

Við verðum að vera þess minnug að uppgangur atvinnulífsins er ekki sjálfgefinn. Við biðjum um umboð kjósenda til að halda uppbyggingunni áfram.

Ég vil að lokum óska launafólki til hamingju með daginn.

Gestur Kristjánsson
frambjóðandi í 1. sæti D-listans