Það gengur vel í Ölfusi. Íbúum hefur fjölgað hratt og atvinnulífið eflst og það tekið miklum breytingum. Rótgróin fyrirtæki hafa styrkst og fjölmörg ný litið dagsins ljós. Umsvif Þorlákshafnar hafa aukist mikið og er hún nú ein af lykilvöruhöfnum landsins. Framkvæmdir við landeldi á laxi hafa þegar hafist og ljóst að þær framkvæmdir munu verða afar umsvifamiklar enda nemur framkvæmdakostnaður vegna þeirra vart undir 160 milljörðum eða sem samsvarar 3 landspítulum eins og ríkið er að byggja í Reykjavík. Þá er nú unnið að undirbúningi á framleiðslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum í steypu upp á a.m.k. milljón tonn á ári. Við þetta bætist svo sú staðreynd að verið er að fjárfesta fyrir um 5 milljarða í hafnarmannvirkjum sem án vafa mun tryggja enn frekari vöxt hafnarinnar. Öllum má því ljóst vera að Þorlákshöfn og nærumhverfi hennar mun vaxa hratt á næstu árum og umferðarálag mun aukast í veldisvexti vegna þessarar miklu atvinnuuppbyggingar.
Samhliða þessari miklu atvinnuuppbyggingu hefur íbúum fjölgað hratt eða um 25% á fjórum árum. Hluti íbúa sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið og til annarra sveitarfélaga.
Þessi mikla uppbygging og þessi hraða breyting kallar á skjót viðbrögð. Eigi þessi verðmætsköpun og uppbygging að halda áfram þarf tafarlaust að ráðast í framkvæmdir við vegabætur. Það þarf að tvöfalda Þrengslin og lýsa þau upp. Á sama hátt þarf Þorlákshafnarvegur að Hveragerði á verulegum úrbótum að halda. Þá er mikilvægt að horfa til þess að tengja Eyrarbakkaveg við hringveg sunnan við Selfoss þannig að höfnin í Þorlákshöfn nýtist Suðurlandi sem best án þess að auka á umferðarálag innan Selfoss.
Til að fylgja þessu eftir samþykkti bæjarstjórn á síðasta fundi að óska tafarlaust eftir viðræður við Vegagerðina til að ræða þá miklu uppbyggingu sem þörf er á til að mæta vaxandi umferðarþunga.
Ég bið um stuðning til að fylgja þessu máli, sem og öðrum mikilvægum framfaramálum, fast eftir á næsta kjörtímabili.
Grétar Ingi Erlendsson
Formaður bæjarráðs og frambjóðandi í 3. sæti D-listans