Í aðdraganda kosninga

Það er óhætt að segja að undanfarnar vikur hafa verið annasamar, skemmtilegar og lærdómsríkar hjá okkur á Íbúalistanum. Það hefur verið gaman að sjá og heyra mismunandi skoðanir fólks og hve margir láta sig málefni samfélagsins okkar varða hér í Ölfusi.

Íbúalistinn er nýtt framboð en við höfum þegar lært margt á stuttum tíma. Þó er eitt sem hefur komið okkur á óvart og skal það opinberað hér. Sá málflutningur (fárra, reyndar), sem okkur þykir orðinn heldur útþynntur þegar þetta er skrifað, að ekki megi líta yfir farinn veg og rýna til gagns. Ef aðdragandi kosninga er ekki tíminn til þess að skoða hvernig staðið var að málum, hvað gert var og hvað gera má betur þá kemur sá tími líklega aldrei. Það er skylda okkar frambjóðenda að rýna til gagns og gera grein fyrir okkar áherslumálum í því samhengi. Hvert er hlutverk okkar ef ekki það? Það hvílir mikil ábyrgð á kjörnum fulltrúum og eðlilegt að fólk hafi á því skoðanir sem gert er. Það þætti máttlaust samfélag sem ekki er tilbúið að læra af mistökum og viðbúið að hvatinn til að gera betur væri lítill.  Við á Íbúalistanum vitum líka, eins og þið flest, að besta forspá um hegðun er fyrri hegðun. Það er líka mikilvægur punktur nú í aðdraganda kosninga og í því samhengi sem hér um ræðir.

Að því sögðu hefur verið gaman að sjá metnað allra framboða síðastliðnar vikur. Frambjóðendur hafa lagt ómældan tíma, orku og vinnu í þágu samfélagsins okkar og fyrir það getum við öll verið þakklát. Það er ekki sjálfgefið og ljóst að við erum heppin hér í Ölfusi að eiga allt þetta góða fólk sem vill leggja sín lóð á vogarskálarnar fyrir samfélagið okkar. Áherslurnar eru vissulega ólíkar en öll eigum við það sameiginlegt að hafa hugsjón og framtíðarsýn fyrir Ölfus, hvert á sinn hátt.

Við á Íbúalistanum getum vel við unað eftir kosningar, sama hver niðurstaðan verður. Lýðræðið er nefnilega svo magnað fyrirbæri og okkur er öllum óhætt að treysta því. Niðurstaðan verður sú sem fólk vill að hún sé. Það er gaman að segja frá því að lýðræðið hefur vegið þungt í öllum málflutningi okkar á Íbúalistanum, við viljum sjá stjórnsýslu Ölfus temja sér lýðræðisleg vinnubrögð í auknum mæli enda tækifærin til þess sjaldan verið meiri. Að auki viljum við lýðræðisvæða Ölfus með auknu samtali við íbúa yfir allt kjörtímabilið, ekki bara fyrir kosningar. Við viljum benda áhugasömum á að stefnumál Íbúalistans, greinaskrif og upplýsingar um frambjóðendur eru aðgengilegar á ibualistinn.is.

Að lokum viljum við á Íbúalistanum hvetja ykkur, kjósendur góðir, til þess að ganga vel upplýst til kosninga á laugardaginn og kjósa samkvæmt ykkar gildum og sannfæringu. Fáum við á Íbúalistanum til þess umboð ykkar, þann 14. maí nk., munum við svo gera ykkar baráttumál að okkar.

Hrafnhildur Lilja Harðardóttir

Frambjóðandi í 5. sæti Íbúalistans