Síðastliðnar tvær helgar hafa keppnislið Fimleikadeildar Þórs farið hamförum þar sem 6 lið skráðu sig til leiks á Vormót og Íslandsmót. Mikil eftirvænting var fyrir mótunum hjá bæði iðkendum og þjálfurum þar sem loksins var komið að móti með venjulegum hætti eftir takmarkanir.
Helgina 21. – 22. maí fór fram Vormót á Selfossi þar sem Fimleikadeildin átti tvö stórglæsileg lið í tveimur flokkum, 5. flokk í stökkfimi og 4. flokk í hópfimi.
Stúlkurnar í 5. flokki sem er yngsti flokkur sem Þór sendi frá sér til keppni keppti í stökkfimi laugardaginn 21. maí þar sem þær stóðu sig gríðarlega vel og sýndu frábæran árangur. Þær tóku sig til og sigruðu gólf æfingar með einstökum æfingum og lentu þar af leiðandi í 2. sæti samanlagt. Þær hafa sýnt miklar framfarir og voru gríðarlega flottar á mótinu heilt yfir.
Stúlkurnar í 4. flokki í hópfimi héldu svo í framhaldi til leiks sunnudaginn 22. maí þar sem þær lönduðu einnig 1. sæti á gólfæfingum með hæstu einkunn mótsins. Að auki stóðu þær sig gríðarlega vel á stökk áhöldum og er árangur þeirra glæsilegur og verður skemmtilegt að halda áfram að fylgjast með þeim.
Um helgina, 28. – 29. maí fór svo fram Íslandsmót í Stjörnunni, Garðabæ þar sem Fimleikadeildin skráði til leiks 4 keppnislið, 2. flokk kvenna, 3. flokk kvenna hóp 1 og hóp 2 og KK eldri.
3. flokkur hópur 2 mættu eldsnemma á laugardagsmorgun þar sem þær kepptu í stökkfimi. Þær sýndu glæsilegar æfingar á öllum áhöldum, en þær sýndu m.a. nýjar gólfæfingar þar sem þær fengu gríðargóða einkunn sem skilaði þeim 3. sæti í erfiðum flokki, sem er frábær árangur. Stúlkurnar í hópi 2 hafa náð miklum framförum og er 3. sætið virkilega vel gert.
4. flokkur hópur 1 mætti svo til keppni í hópfimi á sunnudaginn liðinn þar sem þær sýndu mikinn karakter í afar erfiðum flokki og harðri keppni. Stúlkurnar eru með ungt og efnilegt lið og voru að klára sitt yngra ár í tilteknum flokki. Þær stóðu sig virkilega vel og lentu í 7. sæti með frábærum framförum og bætingum.
Strákarnir okkar í KK eldri mættu til leiks í B flokki þar sem þeir kepptu á fíbergólfi og trampólíni. Strákarnir sýndu miklar bætingar á mótinu og voru deildinni til sóma, en þeir tóku 1. sæti á báðum áhöldum, sem er frábær árangur. Það verður skemmtilegt að fylgjast með þeim spreyta sig og halda áfram að bæta sig á komandi tímum.
Því næst var komið að 2. flokki þar sem keppnin hefur verið afar ströng í gegnum tímabilið. Stelpurnar mættu jákvæðar og með góðan fókus á mótið og gerðu sér lítið fyrir og sigruðu tvö áhöld. Þær eru því nýkrýndir Íslandsmeistarar á fíbergólfi og gólfæfingum. Stórglæsilegur árangur hjá stelpunum sem skilaði sér í mikilli gleði og geislaði brosið allan hring á iðkendum, þjálfurum og áhorfendum.
Fimleikadeild Þórs er gríðarlega stolt af sínum iðkendum en 5 af 6 liðum komust á verðlaunapall sem er einstakur árangur. Það verður afar spennandi að fylgjast áfram með keppni eftir flottan árangur á liðinni önn. Fimleikadeild Þórs óskar öllum iðkendum deildarinnar innilega til hamingju með frábært fimleikatímabil sem er að líða.
Það er þó nóg um að vera hjá deildinni á næstu vikum, ekki örvænta.
Fimmtudaginn 2. júní klukkan 17:30 fer fram Vorsýning Fimleikadeildarinnar þar sem m.a. iðkendur keppnisliða munu sýna einstakan árangur sinn sem skilaði toppsætum á liðnum mótum sem og allir aðrir hópar deildarinnar sýna sínar listir. Frítt er inn og mælum við eindregið með að koma og horfa á þessa hæfileikaríku komandi stjörnur.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá mótunum.
Fimleikadeild Þórs