Síðasti dagur Hamingjunnar við hafið 2022 fór fram laugardaginn 6. ágúst í mjög góðu veðri. Dagskráin hófst á sandkastalagerð og sjósundi í Skötubótinni og í beinu framhaldi bauð Helga Helgadóttir upp á núvitundarstund í garðinum sínum. Börnin biðu spennt eftir Leikhópnum Lottu sem var með sýningu í Skrúðgarðinum í boði Kvenfélags Þorlákshafnar, að vanda sló hópurinn í gegn hjá ungum sem öldnum. Um hádegisbil opnuðu fjölmargir íbúar sem eiga það sameiginlegt að búa til list og/eða handverk heimili sín og garða buðu upp á sýningu og sölu og íbúar á 9unni stóðu fyrir markaðsstemningu í göngugötunni. Á skólalóðinni var líf og fjör þar sem hægt var að fara í hoppukastala, vatnabolta, nerf völl, á leikvöll með opnum efnivið, sjá sirkus, fá andlitsmálningu og blöðrur og síðast en ekki síst æfa sig í sirkuslistum, allt var þetta öllum gestum að kostnaðarlausu.
Það var svo gríðarleg eftirvænting eftir stórtónleikunum í Reiðhöll Guðmundar þar sem fram komu DJ EJ, Moskvít, Sunnan 6, Bassi Maraj, Reykjavíkurdætur og Albatross með Sverrir Bergman í fararbroddi ásamt löngum gestalista. Þeir voru á sviðinu í tvær og hálfa klukkustund og fengu til sín Önnu Möggu, Júlí Heiðar, Emilíu Hugrúnu, Lay Low, Jónas Sig, Röggu Gísla og leynigestinn Magnús Þór ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar og Fjallabræðrum.
Það virðist vera almennt álit viðstaddra að þessir tónleikar hafi verið á meðal þeirra bestu sem sem fólk hefur upplifað, svo mikil er ánægja tónleikagesta.
Halldór Gunnar, sem fer fyrir bæði Fjallabræðrum og Albatross sagði að það væri langt síðan honum hefði liðið eins vel á sviði og þetta kvöld, salurinn söng með eins og einn maður, Lúðrasveitin og Fjallabræður voru upp á sitt allra besta og stjörnurnar sem komu fram sem gestasöngvarar skinu sínu skærasta ljósi.
Tónleikarnir voru einnig ókeypis eins og allir aðrir viðburðir í Hamingjunni við hafið og er vert að þakka sérstaklega öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að hátíðinni sem Sveitarfélagið Ölfus stendur fyrir, en eins og verkefnastjóri Hamingjunnar, Ása Berglind bendir á þá væri þetta ekki hægt án þeirra fjölmörgu aðila sem leggja hátíðinni lið, ýmist í formi fjárframlags eða annarskonar stuðnings. Hér er listi yfir alla samstarfsaðila Hamingjunnar við hafið 2022.
- Sveitarfélagið Ölfuss
- Geo Salmon
- Smyril Line
- Ísþór
- Kvenfélag Þorlákshafnar
- Trésmiðja Heimis
- Rammi hf.
- Ölfusborg
- Byko
- Heidelberg Cement
- Sjóvá
- Landsbankinn
- Hljómlistafélag Suðurlands
- Þór Þorlákshöfn
- Knattspyrnufélagið Ægir
- Sub ehf.
- Fasteignasala Suðurlands
- KR búðin
- Black Beach Tours
- Kuldaboli
- Kaffiskjóðan
- Fagus
- Skinney Þinganes
- Skálinn
- Járnkarlinn
- Apótekarinn
- Hrímgrund
- Colas
- Bjarnastaðir Ölfusi ehf.
- Rafvör
- Thai Sakhon
- Hestafélagið Háfeti
- Grænni Jörð
- Caffe Bristól
- Ungmennaráð Ölfuss
- Brunavarnir Árnessýslu
- Lúðrasveit Þorlákshafnar
- Kiwanisklúbbinn Ölver
- Björgunarsveitina Mannbjörg
- Grunnskólinn, Íþróttamiðstöðin og síðast en alls ekki síst snillingarnir í áhaldahúsinu!
Endilega fylgist með á instagram og facebook síðu Hamingjunnar við hafið og sjáið myndir og video til að endurupplifa augnablikin frá liðinni viku.
Hér að neðan má sjá skemmtilegt myndband frá lokadeginum sem Hörður Skúlason tók en hann var með myndavélina á lofti alla hátíðina.