Jón Karlsson er Hvunndagshetja Ölfuss

Jón Karlsson er Hvunndagshetja Ölfuss 2022 en hann var heiðraður á stórtónleikunum á Hamingjunni við hafið í gærkvöldi.

Allir íbúar Þorlákshafnar þekkja Jón, eða Nonna Kalla, eins og hann er oftast kallaður. Hann er alltaf jákvæður og hress hvar sem hann kemur og með mikinn náungakærleik. Á starfsferli sínum vann Jón í fiskvinnslu, hann hreinsaði götur bæjarins, vann í íþróttamiðstöðinni og á golfvellinum.

Hafnarfréttir óska Jóni Karlssyni innilega til hamingju með nafnbótina Hvunndagshetja Ölfuss 2022.

Hér að neðan má lesa nokkrar umsagnir sem fylgdu tilnefningum Jóns:

Jón er hvers manns hugljúfi og setur sitt mark á bæinn með því að fara í göngutúra á hverjum degi, alltaf í góðu skapi, heilsar öllum og spjallar við fólk. Talar aldrei illa um neinn en er glettinn og hress.

Hvunndagshetja Ölfuss er að mínu mati Jón Karlsson. Hann er góð sál og gerir sér far um að heilsa öllum er á vegi hans verða. Svo er Nonni alltaf í góðu skapi. Að hitta hann gerir daginn alltaf betri.

Jón er góð manneskja sem hefur alltaf góða nærveru. Honum þykir vænt um bæinn sinn og samferðafólkið.

Jón er vinur allra, heilsar öllum og kemur eins fram við alla. Hann er duglegur og jákvæður. Ef allir væru eins og Nonni yrði heimurinn betri.