Hamingjan við hafið – lokadagur

Það voru virkilega glöð börn sem léku sér í ævintýranlegu froðufjöri á skólalóðinni í gær, föstudag. Búin var til froðurennibraut og svo voru fjölmörg sem kepptu í froðubolta og skemmtu sér konunglega. 

Það var svo sennilega slegið einhverskonar met varðandi mætingu í litaskrúðgönguna, þvílíkur fjöldi og þvílíka litadýrðin. Lúðrasveit Þorlákshöfn fór fyrir göngunni, dregin áfram á kerru af Smára Tómassyni og glæsibifreið hans og þar á undan var Flosi á traktornum sem skartaði íslenska fánanum. Þegar í bræðsluna var komið tók á móti þessum fríða hóp karnival stemning, tónlist, matur og skemmtilega skreytt hverfatjöld. Jarl Sigurgeirsson leiddi svo alla í bræðslusöng af sinni alkunnu snilld. 

Hér má sjá video með broti af því sem átti sér stað þennan daginn.  https://fb.watch/eJRidjZHwV/

Dagskráin í dag, laugardaginn 6. ágúst

Það verður heilmikið um að vera í dag, þennan síðasta dag í dagskrá Hamingjunnar við hafið. Þið sem eigið fánastangir eru hvött til þess að draga íslenska fáninn að húni við fyrsta hanagal, þetta er jú hátíðisdagur. 

Hamingjurásin 106,1 fer í loftið í síðasta sinn í dag (þetta árið!) og eins og áður hefur komið fram er hægt að hlusta líka á spilarinn.is

Sandkastalagerð og sjósund kl. 9.30

Komið með skóflur, fötur, eða hvað sem ykkur langar að nota til að búa til glæsilega eða stórfurðulega sandkastala.

Kröftugir Þorlákshafnarbúar ætla að bjóða fólki að koma með sér í sjósund í Skötubót á sama tíma, allir velkomnir, reyndir og óreyndir. Koma í sundfötum, innan undir fötunum og hafa með sér stórt handklæði og kannski ullarhúfu ef maður á.

Gengið ofan í fjöru frá bílastæðinu hjá golfvellinum.

Núvitundarstund kl. 10.30 í garðinum hjá Helgu og Sigurði að Lyngbergi 17

Helga býður þeim sem vilja upp á rólega stund til að staldra við, hugleiða, virkja ímyndunaraflið og skynfærin og fagna því sem er hér og nú. Tilvalin slökun fyrir skemmtanahald dagsins. 

Leikhópurinn Lotta í Skrúðgarðinum í boði Kvenfélags Þorlákshafnar

Leikhópurinn Lotta ferðast um landið í sumar með æðislega 30 mínútna sýningu unna uppúr sýningunni Mjallhvít sem hópurinn setti upp fyrir nokkrum árum. Sagan hefur verið sett í glænýjann búning sem hentar vel fyrir hátíðir af öllum stærðum og gerðum. 4 þekktir Lottu leikarar mæta á staðinn með frábæra sýningu stútfulla af sprelli og fjöri fyrir allan aldur.

Sýningar og sölur um allan bæ kl. 12.30-16.30

Heimafólk ætlar að bjóða heim og sýna og selja handverk, myndlist og annarskonar list. Þetta er tilvalinn göngutúr og alls staðar opið á milli kl. 12.30 og 16.30: 

  • Markaðsstemning á 9unni, Egilsbraut 9
  • Handverk og heilsa. Opið hús hjá Helgu og Sigurði að Lyngbergi 17. 
  • Súpa og sýning hjá Róberti Ingimundar Gissurarbúð 1
  • Myndlist og gróðurveggir til sýnis og sölu hjá Kristínu á Heinabergi 20
  • Anna Margrét Smáradóttir með sýningu í galleríinu Undir stiganum í Bókasafni Ölfuss

Krakkafjör við Grunnskólann í Þorlákshöfn kl. 13-16

Það verður nóg um að vera í kringum nýmálaðan grunnskólann. Sirkus unga fólksins verður með sýningu kl. 13.30 og einnig vinnusmiðjur, blaðrara og andlitsmálnningu. 

Spennandi leikvöllur með opnum efnivið verður undir stjórn Hönnu Bjargar sem sá um útfærslu. Endilega komið með hamar og kannski líka pollabuxur. 

Þá verða einnig hoppukastalar, vatnaboltar og nerf völlur, allt öllum að kostnaðarlausu. 

Matarvagnar við Reiðhöll Guðmundar

Kl. 18 opna matarvagnarnir hlera sína og selja mat fram eftir kvöldi. Vagnarnir sem koma eru: 

– Prikið með Hamborgarar

– Dons Donuts með kleinuhringi

– Grill og Thrones með grillspjót

– Tacoson með Tacos

– Kebab Vagninn með kebab

Það verða bekkir og borð á staðnum og því auðvelt að eiga huggulega stund með góðum veitingum. 

Stórtónleikar í Reiðhöllinni, umhverfisverðlaun afhent ásamt tilnefningunni Hvunndagshetja Ölfuss 

Hápunktur Hamingjunnar verður á stórtónleikum í Reiðhöll Guðmundar þar sem dagskráin verður sem hér segir

kl. 19.00 – DJ EJ

kl. 19.30 – Sunnan 6

kl. 19.55 – Umhverfisverðlaun afhent og tilkynnt um hver fær nafnbótina Hvunndagshetja Ölfuss

kl. 20.00 – Moskvít

kl. 20.30 – Bassi Maraj

kl. 21.00 – Reykjavíkurdætur

kl. 21.30 – Hljómsveitin Albatross með Sverrir Bergmann í fararbroddi ásamt glás af gestum. Þau eru: 

– Anna Magga

– Emilía Hugrún

– Júlí Heiðar

– Jónas Sig

– Ragga Gísla

– Lay Low 

– Lúðrasveit Þorlákshafnar

– Fjallabræður 

– Leynigestur!! Lifandi goðsögn stígur á svið. 

Frítt er inn á tónleikana. Tekið skal fram að hundar eiga ekkert erindi á þessa tónleika og þurfa að vera heima. 

Flugeldasýning

Björgunarsveitin Mannbjörg og Kiwanisklúbburinn Ölver sjá um að koma í loftið glæsilegri flugeldasýningu. Hún hefst korteri eftir að síðasta lag hljómar á tónleikunum og best er að horfa frá gamla fótboltavellinum, næst reiðhöllinni. 

Hamingjuball í Versölum með Unni Birnu og Gunna Óla ásamt hljómsveit

Það er ekki eins og fjörið klárist með flugeldasýningunni heldur þvert á móti er hægt að halda áfram að gleðjast í Hamingjunni langt fram á nótt á glæsilegu Hamingjuballi. Þau Unnur Birna, sem spilar á fiðlu og syngur með Fjallabræðrum (og Jethro Tull) og Gunni Óla fara fyrir frábærri hljómsveit. Sérstök athygli er vakin á að forsala fer fram í Kaffiskjóðunni (bakaríinu) og þar kostar miðinn 3500 kr. en 4500 kr. við hurð. 

Skemmtum okkur fallega í allan dag og fram á nótt.