Hamingjan við hafið: Dagur 4 (sjáðu myndirnar)

Það er heldur betur að færast yfir bæinn hátíðarbragur. Mikið um skemmtilega skreytt hús og víða hafa heilu hverfin tekið sig saman og skreytt botnlanga með þvílíkum metnaði að annað eins hefur vart sést. Endilega fáið ykkur göngutúr og skoðið þessar skemmtilegu skreytingar. 

Það er rétt að minna á að lokað verður fyrir tilnefningar í dag fyrir Hvunndagshetju Ölfuss, en viðurkenning verður veitt á laugardagskvöld ásamt umhverfisverðlunum. Endilega takið þátt, við þekkjum öll að minnsta kosti eina hvunndagshetju, takið ykkur 2 mínútur til að tilnefna viðkomandi ásamt stuttum rökstuðningi  á netfangið frettir@hafnarfrettir.is

Í gær var þetta helst

Dagskrá gærdagsins fór heldur betur vel fram í blíðskaparveðri. Fjölmargir lögðu leið sína í sundlaugina til að fara á tónleika og í sundlaugarpartý. Grill og harmonikkuball á 9unni var einnig mjög vel sótt og hljómsveitin Sigfús stóð fyrir sínu eins og undanfarin ár, fékk alla í söng og dans, allt eins og það á að vera. Við viljum færa Jóni Páli og Hrönn sérstakar þakkir fyrir aðstoð þeirra á þessum viðburði, Jón Páll sá um grillið eins og undanfarin ár og Hrönn stökk í eldhúsið, græjaði uppvask, kaffi og fleira. 

Garðtónleikar Hljómlistafélags Ölfuss fóru fram á sumarkvöldi eins og þau gerast best. Alls komu átta atriði fram á 8 stöðum og greinilegt að hér skortir ekki hæfileikana. Bestu þakkir til Hljómlistafélagsins fyrir að standa fyrir þessum viðburði sem og öllum þeim sem komu fram og lánuðu garðana sína. Þess má geta að það söfnuðust 274.000 kr. sem renna beint í uppbyggingu á æfingar- og upptökuaðstöðu. 

Dagskráin í dag

Í dag verður froðufjör á skólalóðinni kl. 15 þar sem verður hægt að renna sér í froðurennibraut, spila froðubolta (þau sem voru að klára 4. bekk og eldri) og fara í bubblubolta. Ungmennaráð tekur þátt í þessum viðburði og færum við þeim miklar þakkir fyrir. 

Litaskrúðganga og hverfapartý í bræslu

Lúðrasveit Þorlákshafnar leggur af stað í litaskrúðgöngu kl. 19.30 og sækir hverfin hvert á eftir öðru og leiðir beint í hverfapartý í bræðslunni. Svona verður skipulagið: 

Lúðrasveit Þorlákshafnar af stað niður Skálholtsbraut frá skólanum kl. 19.30. Byrjar á að sækja bláa hverfið sem verður búið að safnast saman á horni Reykjabrautar og Skálholtsbrautar. Svo höldum við áfram, beygjum til vinstri hjá verslunarmiðstöðinni, sækjum rauða hverfið sem býður við ljósin. Svo sækjum við græna hverfið sem býður á horni Hafnarbergs og Knarrarbergs. Að lokum verða gulir sóttir sem bíða við leikskólann. Saman höldum við svo áfram Egilsbautina sem leið liggur að bræðslunni.

Í bræðslunni bjóða hverfin upp á pálínuboð og tónlistaratriði auk þess sem Jarl Sigurgeirsson stjórnar bræðslusöng af sinni alkunnu snilld. Kl. 23.30 lýkur dagskrá í bræðslunni og þá er tilvalið að leggja leið sína beint í Körfupartý í Versölum fyrir litlar 1500 kr. Þar verður einnig hægt að fá grillaða borgara. Bíðið bara þar til þið sjáið stórkostlegu tjöldin og skreytingarnar hjá hverfunum, þetta er einu orði sagt frábært!

Mikilvægar upplýsingar um breytingu á dagskrá

Eins og fram kom í gær þá verða stórtónleikarnir haldnir í Reiðhöll Guðmundar. Matarvagnarnir verða þar líka og opna kl. 18 á laugardag. Flugeldasýningin færist yfir á gamla grasvöllinn sem er nær reiðhöllinni og hefst hún 15 mínútum eftir að síðasta lag á tónleikunum klárast.

Síðustu daga hafa æfingar fyrir stórtónleikana farið fram í Grunnskólanum í Þorlákshöfn þar sem Albatross, Fjallabræður, Lúðrasveit Þorlákshafnar og allt stórskotaliðið sem syngur með hefur æft af kappi. Það er óhætt að lofa stórkostlegum tónleikum. Það vill enginn missa af þessum viðburði. En meira um það síðar!

Sem fyrr minnum við á Hamingjurásina 106,1 og dagskrána.

Hér að neðan má sjá myndir frá Garðtónleikunum og sundlaugarpartýinu.