Ægismenn töpuðu gegn úrvalsdeildarliði KA í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta á Akureyri í kvöld.
Ægismenn börðust af krafti allan leikinn og voru mjög þéttir varnarlega og með Stefán Blæ sem hirti allt í markinu. Ægismenn áttu nokkur fín færi í leiknum og var staðan 0-0 allt þar til á 75. mínútu þegar Akureyringar komust yfir.
Þá þurftu Ægismenn að fara að sækja meira fram á við, sem opnaði á varnarleikinn og fór það svo að KA-menn bættu við tveimur mörkum undir lok leiks.
Leikar enduðu því 3-0 fyrir KA, sem fara í undanúrslitin á meðan Ægismenn halda áfram baráttu sinni í 2. deildinni þar sem liðið á fínan möguleika á að komast upp í 1. deild.