Römpum upp Ísland ætla að setja upp 5-8 nýja rampa í Þorlákshöfn

Sveitarfélagið Ölfus vinnur nú með Römpum upp Ísland að því að koma upp 5 til 8 nýjum römpum í Þorlákshöfn. Eins og þekkt er gerir Römpum upp Ísland rampa, viðkomandi að kostnaðarlausu en sinnir eingöngu aðgengi að verslunum, veitingastöðum og annarri þjónustu í eigu einkaaðila.

Samstarf Sveitarfélagsins Ölfus og Römpum upp Íslands gerir ráð fyrir að settir verið upp 5 til 8 rampar í Þorlákshöfn og er í því samhengi óskað eftir ábendingum það hvar úrbóta er helst þörf.

Við byrjum á römpum:

  • þar sem mannfjöldinn er mestur (í miðbæ – á aðalgötunni …)
  • þar sem hæð að hurðargati er 15 cm eða minna
  • Þar sem hurðarop er 83 cm eða meira
  • Þar sem gangstétt er nægjanlega breið til að rúma ramp og gönguleið. (Miðað við ofantalin hæðamörk má hallinn ekki vera meira en 1:12 sem segir að t.d. 10 cm hæð við hurðargat kallar á ramp, 1,20 cm á lengd)

Ramparnir eru með þeim hætti að 15 cm hækkun er í formi bungu sem er aflíðandi frá hurð í halla 1:12.

RUÍ mun teikna allar aðgengisbreytingar og leggja þær fyrir sveirarfélagið sem eftir atvikum fær samþykki einkaaðila (þar sem þeir eiga lóðina). Ekki er reiknað með rekstrarstöðvun á meðan á framkvæmd stendur.

Sem fyrr segir er nú leitað eftir ábendingum bæjarbúa um hvar rampa sé helst þörf. Þá er einnig leitað að samstarfi við verslunareigendur og þjónustuveitendur sem hafa áhuga á að bæta aðgengi með römpum.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Davíð Halldórsson, umhverfisstjóra, með tölvupósti á david@olfus.is