Hamingjan við hafið er nú rétt handan við hornið en hún verður sett formlega þriðjudaginn 8. ágúst og mun Leikhópurinn Lotta stíga á svið í Skrúðgarðinum strax í kjölfarið, öllum að kostnaðarlausu. Sveitarfélagið Ölfus hefur yfirumsjón með hátíðinni en einnig koma bæjarbúar að henni með ýmsum hætti. Markmiðið hefur alltaf verið að viðburðir hátíðarinnar á vegum Sveitarfélagsins séu gjaldfrjálsir svo allir eigi þess kost að taka þátt.
Íbúar eru hvattir til þess að skreyta í hverfalitunum, gult fyrir Búðir, rautt fyrir Hraun og Byggðir, grænt fyrir Bergin, blátt fyrir Brautir, bleikt fyrir Móa og fjólublátt fyrir dreifbýlið.
Þriðjudaginn 8. ágúst munu hverfin etja kappi í Boltaþrautum hverfanna en þá verður keppt í þrautum með fótbolta og körfubolta og geta allir tekið þátt bæði ungir sem aldnir. Upplýsingar varðandi Boltaþrautir hverfanna hafa verið settar inn á hverfasíður á Facebook.
Hin árlega litaskrúðganga verður farin föstudagskvöldið 11. ágúst og verður nánar auglýst síðar.
Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá alla dagana og má þar nefna Leikhópinn Lottu, sundlaugapartí fyrir börn og unglinga, harmónikkuball eldri borgara, lautarferð og leikjakvöld. Á laugardeginum verður glæsileg barnadagskrá með hoppiköstulum, vatnaboltum, BMX Brós, fornbílasýningu, Bestu lögum barnanna, Veltibílnum, krakkaballi og söngvarakeppni svo eitthvað sé nefnt.
Yfir helgina verður boðið upp á veglega tónleika, bæði föstudags- og laugardagskvöld. Þar koma fram m.a. Sunnan 6, Jónas Sigurðsson, Hr. Eydís, Hreimur, Jón Arnór og Baldur, Katrín Myrra, Moskvít, Langi Seli og skuggarnir, Júlí Heiðar og Kristmundur Axel og Emmsjé Gauti.
Körfuknattleiksdeild Þórs verður með sitt árlega körfupartý á föstudagskvöldinu og Hamingjuballið verður að sjálfsögðu á sínum stað á laugardagskvöldinu í kjölfar stórglæsilegrar flugeldasýningar.
Fjölmargir gestir sækja hátíðina ár hvert og hefur hún fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta bæjarhátíð landsins enda Þorlákshöfn bær í hraðri uppbyggingu þar sem tækifærin liggja alls staðar.
Dagskrána í heild sinni má finna á Hamingjan við hafið á Facebook. Hægt er að fylgjast með viðburðum bæði á Facebook og á Instagram.
Hafnarfréttir munu að sjálfsögðu fylgjast með dagskránni frá degi til dags og flytja fréttir af hátíðinni.