Caffe Bristól fær nýja eigendur

Þau Oddur Tómas Oddsson og Brynhildur Jónsdóttir hafa tekið við rekstri Caffe Bristól að Selvogsbraut 4. Hafnarfréttir tóku nýju eigendurna tali.

Tommi er Eyrbekkingur, fæddur þar og uppalinnn en bjó í Þorlákshöfn í nokkur ár og vann þar í fiski áður en hann fluttist til Reykjavíkur. Binna er borinn og barnfæddur Reykvíkingur með hjarta smábæjarstelpu að eigin sögn.

,,Caffe Bristól er nú opið allan daginn og áfram verður boðið upp á hlaðborð í hádeginu til kl. 14. Kl. 15 tekur svo kvöldmatseðill yfir þar sem boðið er uppá hamborgara, salöt, fisk og fleira. Við byrjum smátt á meðan við erum að læra enda hefur hvorugt okkar unnið við svona rekstur áður, bara verið draumur hjá Tomma í mörg ár að opna svona rekstur og fá að elda sinn mat fyrir fólk“, segir Binna.

,,Binna er svo snillingur í frontinum þar sem hún brosir og spjallar við alla eins og hún hafi þekkt þau í fleiri ár“, bætir Tommi við.

,,Barinn verður opinn líka en a föstudögum og laugardögum verður opið til 23 á kvöldin svo fólk geti komið saman og fengið sér smá öl eða annan drykk og spjallað frameftir kvöldi. Við reiknum með að prófa nokkra hluti í vetur til að sjá hvar áhuginn er hjá bæjarbúum, erum auðvitað alltaf opin fyrir góðum hugmyndum. Hægt er að nálgast okkur á Facebook spjallinu, email eða bara kíkja í kaffi ef fólk langar að spyrja um eitthvað. Við lofum að svara eins hratt og við getum.“

Hafnarfréttir bjóða þau velkomin í bæinn með ósk um gott gengi. Opnunarpartí verður á laugardaginn þar sem ýmis tilboð verða í gangi.