Leikfélag Ölfuss hefur legið í þónokkrum dvala síðan í blessuðu Covidinu, allavega hvað sýningar varðar. Það hefur þó ýmislegt verið að gerast innan vébanda félagsins þennan tíma en nú stefnir í að lögð verði lokahönd á innréttingu leikhúss að Selvogsbraut 4.
Vorið 2021 tók Bæjarstjórn ákvörðun um að styðja við bæði Leikfélag Ölfuss og Hljómlistarfélag Ölfuss með því að styrkja félögin með leigu á sitthvoru bilinu að Selvogsbraut 4, sama húsi og hýsir Heima Bistró (áður Hendur í höfn). Var þar loks komin langþráð lausn á húsnæðisvanda Leikfélagsins sem hafði fram að því fengið að sýna í Versölum frá stofnun félagsins árið 2005. Sá böggull fylgdi þó því skammrifi að taka þurfti niður leikmyndir og búnað ef eitthvað var um að vera í salnum og þurfti oft að taka niður allt að 10 sinnum á meðan á æfingum og sýningum stóð í hvert sinn.
Stjórn Leikfélagsins tók við lyklavöldum að Selvogsbrautinni snemma vors 2021 og strax fóru af stað bollaleggingar um hvernig best væri að innrétta og nýta húsnæðið svo hægt væri að sýna þar leiksýningar. Drifið var í að sprautumála kjallarann hvítan og svo stóð til að flytja allt dót félagsins frá gömlu Hafnarvoginni niður í kjallarann nýmálaða. Það vildi ekki betur til en svo að áður en af því varð sprakk klóakrör í kjallaranum og miður geðslegt innihald þess dreifðist yfir allt (dótið sem betur fer ekki komið þangað). VIð tóku hreinsunaraðgerðir og endurmálun. Þegar átti svo að fara aftur að vinna í húsinu fór allur hitinn af því og það um hávetur! Guðjón pípari kippti því í liðinn en svo fór að leka með vatnslögnum og enn þurfti að fara í viðgerðir. Allt blessaðist það að lokum en þá kom að því að rafmagnið í húsinu var allt í ólestri og fór nokkur tími í það hjá leigusala að lagfæra raflagnir svo hægt væri að fara að vinna í húsinu.
Til að toppa allt sprakk vatnsrör snemma þessa árs í gömlu hafnarvoginni, sem verið hefur geymsla Leikfélags Ölfuss síðan árið 2008, og allt fór á flot. Mörgu tókst að bjarga en einhverjir munir urðu vatni að bráð. Nú hefur allt dót verið flutt í varanlega geymslu í kjallara nýja leikhússins.
Leikfélagar létu þetta þó ekki stoppa sig og nú á haustmánuðum hefur allt verið á fullu í leikhúsinu. Félagar hafa rifið niður veggi og hent burt myglu og tveir duglegir smiðir hafa komið í hverri viku og búið er að setja einangrun á milli leikhússins og veitingahússins, setja upp veggi til að stúka af leikaraaðstöðu, lagfæra salernisaðstöðu, mála og flísaleggja. Fljótlega geta félagar farið að mála salinn í hólf og gólf og þá fer nú að styttast í að hægt verði að hefja leikhússtarfsemi af fullum krafti. Stefnt er að því að setja eitthvað upp eftir áramótin, svo fremi að ekkert alvarlegt komi upp á.
Leikfélag Ölfuss þakkar Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir stuðninginn og vonar að leikhúsbakterían nái að skjóta sér niður í hvert hús og hverja sál. Allir eru velkomnir til liðs við félagið og um að gera að kynna sér starfsemina.
Stjórn Leikfélags Ölfuss