Fyrir hönd Brimbrettafélags Íslands (BBFÍ)

Þorlákshöfn er hjartað og lungun í brimbrettasamfélagi Íslands. Bærinn hefur lengi vel tekið vel á móti brimbrettafólki sem hefur streymt inn í bæinn til að iðka sína íþrótt. Bæjarfélagið hefur sjálft getið af sér brimbrettaiðkendur og einnig hafa nokkrir iðkendur flutt í sveitafélagið til að vera nær þessari einstöku náttúruperlu. Þessir bæjarbúar þurfa einungis að taka fram hjólið sitt til að komast að bestu og vinsælustu brimbrettaöldu landsins. Þeim á eflaust einungis eftir að fjölga, þar sem brimbrettaíþróttin er ört stækkandi og frábær leið til þess að fást við náttúruöflin, stunda útivist og iðka íþrótt sem er viðurkennd ólympíuíþrótt. Brimbrettafólk á Íslandi í dag telur um 550 manns og fer samfélagið ört stækkandi. Með áframhaldandi stækkun á íþróttinni er mögulegt að UMF Þór muni einn daginn útbúa eigin deild eða stofna Brimbrettafélag Ölfuss. Það þarf ekki að setja neina fjármuni í uppbygginguna þar sem fullkomnar aðstæður eru nú þegar við Hafnarnesvita, sem eru bæði sjálfbærar og viðhaldsfríar.

En nú stendur til að koma landfyllingu fyrir á svæðinu við Hafnarnesvita, þar sem bæjarbúar koma oft til þess að njóta útsýnisins og horfa á brimbrettaiðkendur brima. Landfylling mun hafa hrikalegar afleiðingar, aldan styttist , endurkast sjávar verður meira og aðstæður hættulegri þar sem aldan mun enda á landfyllingunni. Framkvæmdin er sambærileg og ef ákveðið væri að malbika yfir skíðasvæðið í Bláfjöllum. Iðkendur yrðu hvattir til að skíða annarsstaðar.    

Uppbyggingin í Þorlákshöfn er umfangsmikil og samkvæmt bæjarstjórn leið til að byggja upp öflugra atvinnulíf í bænum. Nýlega skrifaði sveitarstjórnarkona í Ölfusi pistli um mikilvægi þess að huga að mannlífinu, að búa til annars konar aðdráttarafl í bæjarfélaginu, að hafa útivistarsvæði og umhverfið í huga þegar farið er í svo stórar framkvæmdir. Lífsgæði þeirra sem búa í Þorlákshöfn og þeirra sem munu búa þar í framtíðinni skiptir höfuðmáli. Að komandi kynslóðir fái að njóta góðs af lifandi atvinnulífi, þeirrar náttúru og því mannlífi sem Þorlákshöfn hefur upp á að bjóða. 

Landfyllingin

Hér er mynd sem sýnir fyrstu tillögu sveitarfélagsins með rauðu, gult sýnir aðra tillögu þeirra og svarta línan sýnir gagntillögu BBFÍ

Mynd 1: tillögur af landfyllingu

Að sögn ráðgjafa sem vinnur að þessu verkefni fyrir sveitarfélagið Ölfus mun þessi breyting (gul og rauð lína) engin áhrif hafa á núverandi brimbrettaaðstæður. Í bréfi sem birt var í Hafnarfréttum 25. október frá meirihluta D-lista stendur:

„Áhrif landfyllingar á öldufar sunnan við útsýnispall eru engin. Endurkast landfyllingar er óverulegt vegna grjótgarðs. Endurkastið af sjóvörninni endurkastast í átt að Suðurvarargarði en ekki til baka.  Aldan mun halda áfram að hlaðast upp á kúlunni eins og hún hefur gert í aldanna rás brimbrettaiðkendum til ánægju.  Aldan gerir sér enga grein fyrir hvað er framundan og þannig að fullyrðingar um að verið sé að skemma eitthvað standast enga skoðun.„

BBFÍ er alls ekki sammála þessa fullyrðingu og hafa fengið alþjóðlegan hafnarráðgjafa til að fara yfir gögnin. Niðurstaða hans var sú að tillaga ráðgjafa mun stytta öldulengd til muna auk þess að valda endurkasti vatns sem mun hafa neikvæð áhrif á öldugæði. Skýrsluna í heild má nálgast hér.

Að auki er svæðið á náttúruminjaskrá en þetta hefur umhverfisstofnun að segja um svæðið:

„Að mati Umhverfisstofnunar er uppbygging á svæðinu farin að hafa áhrif á útivistargildi svæðisins sem er m.a. vinsælt fyrir brimbrettaiðkun og því farin að hafa áhrif á svæði sem er á náttúruminjaskrá. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að hugað sé að verndun svæða til útivistar og skoðaðir séu aðrir valmöguleikar varðandi uppbyggingu athafnasvæðis.“

Í bréfi sem sent var til Hafnarfrétta skýra fulltrúar D-listans frá því að „umhverfis- og skipulagsmál eru ætíð viðkvæm og að þar sé vandað til verka“. Væri þá ekki ráðlegt að óska eftir því að óháður verkfræðingur fari yfir fyrirliggjandi gögn og komi með óhlutdræga niðurstöðu?

Mynd 2: núverandi tillaga að landfyllingu

BBFÍ vill að íbúar Ölfuss og fulltrúar þess spyrji sig hvort það sé þess virði að fórna þeim framtíðarmöguleikum sem þessi alda býður upp á (aukið fasteignaverðmæti, betra útivistarrými og aðgengi að ströndinni innanbæjar, eiga öldu á heimsmælikvarða í bænum) fyrir illskilgreinda athafnalóð?

Það hafa margar raddir heyrst innan sveitarfélagsins sem eru jákvæðar og vilja vinna með Brimbrettafélagi Íslands til að viðhalda öldunni og byggja upp mannlífið. Þar hefur fólk talað um að fara eftir fordæmi Fjallabyggðar, að best sé að vernda svæðið sem hér um ræðir sem útivistarsvæði og byggja það þannig upp að hægt sé að nýta það til framtíðar, hvort sem það sé til útivistar, íþróttaiðkunar eða til að auka ferðaþjónustu innan bæjarins.

Mynd 03: sýnir hvernig landfyllingin yrði

Mynd 04: mynd sýnir önnur starfsemi sem gæti orðið á þessu svæði t.d. kaffihús og sjóböð

Landfyllingin gæti þá verið minnkuð (svarta lína á mynd 1) eða komið fyrir í sandfjörunni austan við bæinn, og er þar einnig möguleiki á áframhaldandi stækkun. En það svæði er mun hentugra til landfyllingar þar sem svæðið við Hafnarnesvita er á náttúruminjaskrá og vinsælt útivistarsvæði.

Á morgun, fimmtudaginn 2. nóvember greiðir bæjarstjórn atkvæði um þessa tillögu. Við hvetjum alla íbúa til að íhuga hvað þessi breyting hefur í för með sér og ræða hana betur við bæjarfulltrúa.

BBFÍ hefur óskað eftir að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á bæjarstjórnarfundinum sem hefst klukkan 16:30 á morgun og verður streymt á netinu svo allir geti fylgst með umræðum. Bæjarstjórn hefur ekki fallist á þetta og gert tillögu um að hittast fyrir luktum dyrum áður en opinber fundur þeirra hefst.

Brimbrettafélag Íslands