Þollóween hátíðin er hafin

Mánudaginn 23. október var Skammdegishátíðin Þollóween sett við hátíðlega athöfn í Draugagarðinum. Dagskráin er þétt alla vikuna og nú í kvöld verður 10. bekkur með draugahús fyrir mið- og unglingastig Grunnskólans. Það kostar 300 krónur inn og er lofað miklum hryllingi og sturluðu fjöri.

Kl. 20:00 hefst skyggnilýsingafundur í Versölum þar sem Jón Lúðvíks og Valgerður Bachmann gægjast inn í heim hinna framliðnu. Húsið opnar kl. 19:30 og það verður sett í lás á slaginu kl. 20:00 þegar fundurinn hefst. Aðgangseyrir er kr. 3000 og posi á staðnum.

Á morgun, fimmtudaginn 26. október verður viðburður á bókasafninu sem nefnis Beinagrindur á bókasafninu. Þar verður lesin hrollvekjandi saga og heyrst hefur að draugar muni spretta fram úr hverju horni undir lestrinum. Upplesturinn er ætlaður 10 ára og eldri og er aðgangur ókeypis. Hann hefst kl. 17:30 og stendur í 30-40 mínútur. Klukkan 18:00 hefst svo dagskrárliður fyrir yngstu börnin sem kallast Grafir og bein. Þá mæta allir með vasaljós í Draugagarðinn og hjálpast að við að leita að beinagrindum og koma þeim fyrir í réttum kistum. Ekki er um keppni að ræða að þessu sinni heldur hjálpast allir að við að koma beinagrindunum heim og saman. Kvöldið endar svo á ónotalegri sundstund sem hefst kl. 19:30 og stendur til kl. 22:00.

Föstudaginn 27. október er búningadagur í leik- og grunnskóla. Horft verður á Halloweenmynd í Frístund og síðan fara börn út að safna gotteríi milli kl. 17:00 og 19:00. Fólk er beðið að merkja hús sín vel svo ekki fari á milli mála hvar góðgæti er í boði. Kl. 19:00 hefst svo Draugahúsið hryllilega í Olísbúðinni að Óseyrarbraut 6. Miðasala á þann viðburð fer fram á tix.is og óhætt er að segja að það stefnir í að verða uppselt.

Á laugardeginum er síðan Nornaþingið sívinsæla þar sem konur koma saman og skemmta sér ærlega. Dagskráin er einkar glæsileg. Blush verður með sölubás, það verður happdrætti með veglegum vinningum, Sigga Dögg talar um nornamál, Madame Tourette mætir með sitt óviðjafnanlega uppistand og síðan verður ball með Bödda Reynis og seiðkörlunum fram eftir nóttu. Nornaþingið er svokallað Pálínuboð þar sem nornirnar mæta með eitthvað á matarborðið (gott að sameinast nokkrar um einn rétt). Enginn bar verður á staðnum. Forsala aðgöngumiða er hjá Gunnu Möggu í síma 776-1301 eftir kl. 13 á daginn. Einnig verður hægt að kaupa miða frá kl. 12 laugardaginn 28. október í Versölum.

Skemmtum okkur alla vikuna á Þollóween.