Hafnarfréttir stóðu fyrir kosningu á Ölfusingi ársins árið 2023 líkt og um síðustu áramót en þá hlutu heiðurshjónin Gísli Eiríksson og Þórunn Jónsdóttir nafnbótina fyrir að hlúa að fallega jólatrénu við Þorlákshafnarveginn. Þátttaka í kosningunni fór fram úr björtustu vonum en alls bárust 117 atkvæði. Ása Berglind Hjálmarsdóttir bar sigur úr býtum að þessu sinni og hlaut hún góða kosningu. Meðal umsagna frá lesendum má nefna : ,,Hún stendur með náttúrunni og hefur lýðheilsu íbúa að leiðarljósi. Hún hefur hjartað á réttum stað og hefur verið frumkvöðull í menningarstarfi í sveitarfélaginu.“ Blaðamaður Hafnarfrétta tók hús á Ásu Berglindi og færði henni viðurkenningu af þessu tilefni.
Hvernig líður þér með að hljóta þessa nafnbót?
,,Ég er bara alveg ótrúlega hrærð. Ég hefði ekki trúað því hvað það hefur mikla þýðingu að fá þessa viðurkenningu. Þetta er búið að vera krefjandi barátta, ef ég leyfi mér að segja það, að tala fyrir náttúruna og þessi gildi sem ég vil að við höldum í sem samfélag sem eru lífsgæði og þessi virðing fyrir náttúrunni og samspil íbúa við hana. Þetta þarf allt að vera í einhverju jafnvægi og að það verði áfram til þetta góða samfélag sem við sem hingað fluttum og hér hafa búið viljum njóta, það er að geta farið og notið náttúrunnar án þess að hún sé umkringd einhverjum þungaiðnaði. Auðvitað þarf samfélagið að byggjast upp, bæði atvinnulega en ekki síður hvað varðar mannlífið og lífsgæði fólks. Mér finnst við vera á viðkvæmum stað hvað það varðar og mér finnst gott að sjá að það sé fólk þarna úti sem er á sama máli.„
Nú kom sterkt fram í umsögnum lesenda að eftir því er tekið hvað þú hefur átt stóran þátt í menningarlífi sveitarfélagsins. Hvað viltu segja um það?
,,Já, ég elska hvað menningin er öflug í sveitarfélaginu, öll þessi félög, hvort sem það eru kórar, leikfélagið, hljómlistafélagið eða lúðrasveitin, sem ég náttrúlega ólst upp í. Svo erum við auðvitað með annars konar menningu líka, það er menning í Kiwanisklúbbnum, það er íþróttamenning og allt eru þetta hlutir sem búa saman til þetta öfluga mannlíf sem er í þessum bæ og sem maður elskar. Mér finnst svo mikilvægt að við reynum öll að finna okkur einhvern stað til að leggja okkar af mörkum til að styðja við þetta mannlíf. Það eru einmitt ótrúlega margir að gera og ég er viss um að ef við myndum skoða málið og allir íbúar yrðu spurðir hvort þeir tækju þátt í einhverju félagastarfi kæmi í ljós að það yrði ansi há prósentutala. Hér er mjög hátt hlutfall fólks sem er að leggja sitt af mörkum í þessum félögum út um allt. Svo finnst mér líka skipta svo miklu máli í menningunni að við séum að búa til jarðveg fyrir unga fólkið okkar til að það geti fundið sína styrkleika. Skólinn er auðvitað með ákveðið framboð af listgreinum en kannski ekki nóg fyrir þau sem eru með sína styrkleika í listinni en ekki endilega á öðrum sviðum í skólakerfinu. Þá langar mig til dæmis að nefna Skjálftann sem ég hef staðið fyrir síðustu ár. Það er alveg ótrúlega mikilvægt verkefni bæði fyrir þessa einstaklinga til að blómstra í sínum hæfileikum en ekki síður vegna þess að það að vinna í list hvort sem það er að leika í leikfélaginu eða spila í lúðrasveitinni eða búa til einhvers konar list með bekkjarfélögum sínum er hreinlega sáluhjálpandi. Það styrkir andlega líðan, bæði unglinga og okkar fullorðna fólksins. Það vitum við sem höfum sungið, spilað eða leikið saman. Þetta er svo gefandi og nærandi og við þurfum meira af þessu. Sérstaklega eftir heimsfaraldurinn þar sem allir urðu dálítið vanir því að vera heima og ekki að rækta sig með öðrum. Við þurfum átak í þessu núna myndi ég segja. Við í þessu samfélagi erum reyndar búin að taka mjög vel við okkur og það er gaman að sjá allt vera að fara af stað aftur þó það hafi kannski gerst frekar hægt sums staðar. Sum félög hafa þurft að lúta í lægra haldi eftir heimsfaraldurinn, eins og Kyrjukórinn. Það gekk illa að koma honum aftur af stað en þá höfum við Söngfélagið og við höfum Kirkjukórinn og um að gera fyrir þá sem finnst gaman að syngja að ganga til liðs við þá sönghópa, nú eða byrja með eitthvað nýtt.„
Eitthvað að lokum?
„Ég þakka bara kærlega fyrir mig. Þetta hlýjar manni í hjartanu.“
segir Ölfusingur ársins 2023 með bros á vör.
Aðrir sem hlutu tilnefningu í kosningunni voru Ágústa Ragnarsdóttir, Kolbrún Rakel Helgadóttir, Einar Sigurðsson, Erla Dan Jónsdóttir, Sóley Einarsdóttir, Hjörtur Sigurður Ragnarsson, Benjamín Þorri Benjamínsson, Gústaf Ingvi Tryggvason, Geir Sveinsson, Guðbjartur Örn Einarsson, hjónin Þorgrímur Ármann Þórgrímsson og Þuríður Gísladóttir, Sigríður Garðarsdóttir, Grétar Ingi Erlingsson, Krónuteymið, Ívar Daníels, Glódís Rún Sigurðardóttir, Valur Rafn Halldórsson, Steinunn Emilía Þorsteinsdóttir, Arnar Jónsson, Guðbergur Kristjánsson, hjónin Hannes Sigurðsson og Þórhildur Ólafsdóttir, Þórarinn F. Gylfason, Sigrún Ágústsdóttir, Magnþóra Kristjánsdóttir, Þorsteinn Lýðsson, Óskar Ragnarsson, Elísa Nielsen, Elliði Vignisson og Björgunarsveitin Mannbjörg.
Hafnarfréttir þakka lesendum sínum kærlega fyrir þátttökuna og óska öllum gleðilegs nýs árs.