Ný rennibraut í sundlaugina

Atvinnulíf sem drifkraftur velferðar

Þegar vel gengur í atvinnulífi bæjarins, skapar það ekki aðeins störf heldur einnig tekjur fyrir okkar sameiginlega sjóð sem hægt er að nýta til að efla hér byggð og auka þjónustu. Verðmætasköpun seinustu ára skapar tækifæri til velferðar sem við nú njótum. Af því að vel gengur í atvinnulífinu þá höfum við nú ákveðið að setja upp nýjar og glæsilegar rennibrautir við sundlaugina hér í Þorlákshöfn. Markmið okkar er að hafa hinar nýju rennibrautir tilbúnar strax næsta vor. Heimamönnum og gestum til ánægju og yndisauka.

Börnin þurfa vettvang til samveru og ærsla

Börnin eru grunnur samfélagsins og á okkur öllum hvílir sú skylda að vernda þau og styðja. Í börnunum býr lífskraftur sem verður að fá að njóta sín og jafnframt þarf styðja þau til vaxtar og þroska. Auðvitað skipta skólarnir okkar, stoðþjónustan og slíkt höfuðmáli en fleira þarf til. Jákvætt umhverfi sem hvetur til hreyfingar, samveru og ærsla skiptir líka máli. Þetta höfum við haft að leiðarljósi við mótun nærumhverfis barna á seinustu árum. Ærslabelgur, körfuboltavöllur utandyra og leikvellir eru til marks um slíkt. Á þessari braut viljum við halda áfram.

Tvær nýjar rennibrautir bætast við barnarennibrautina

Nýju rennibrautirnar verða í alla staði glæsilegar. Um er að ræða tvær nýjar vatnsrennibrautir frá Hollenska framleiðandanum iPlay Water Attractions en fyrirtækið hefur meira en 30 ára reynslu af framleiðslu vatnsrennibrauta og leiktækja fyrir sundlaugar og sundlaugagarða. Gert er ráð fyrir að áfram verði notast við núverandi barnarennibraut (minnsta brautin á þrívíddarmyndum) og að hún, ásamt hæstu brautinni notist við núverandi lendingarlaug. Þriðja vatnsrennibrautin endar í sínu eigin lendingarsvæði. 

Hærri rennibrautin verður með þeim hæstu hér á landi

Hærri rennibrautin er tæplega 80 metra löng og byrjar í 9,5 m. hæð og verður því í flokki með þeim hæstu hér á landi. Brautin er með 12,5% meðalhalla og hefur margar beygjur bæði til hægri og vinstri sem sundgestir eiga eftir finna vel fyrir á leiðinni niður. Brautin er í fjölskylduflokki og er talin henta breiðum aldurshópi, allt frá ungum krökkum til fullorðinna einstaklinga.

Lægri rennibrautin endar í keilu til að auka upplifunina

Lægri rennibrautin er 52,4 m. lokuð vatnsrennibraut með svokallaðri skál eða keilu áður en hún endar í sinni eigin innbyggðri lendingarlaug. Brautin er með 13,5% meðalhalla og tekur beygjur bæði til hægri og vinstri áður en sundgesturinn kemur síðan inn í keiluna þar sem viðkomandi fer nokkra svakalega hringi áður en ferðinni líkur með „sturti“ niður um endaopið. Keilan er höfð viljandi meira hallandi heldur flestar aðrar brautir með keilum því þannig fæst enn meiri upplifun af hringferðunum innan í keilunni. Þessi braut er einnig í fjölskylduflokki og er talin henta breiðum aldurshópi, allt frá ungum krökkum til fullorðinna einstaklinga.

Lokað og upphitað stigahús

Stigahúsið sjálft verður um 12 metra hátt, lokað og upphitað með sameiginlegum stiga fyrir báðar nýju rennibrautirnar. Stigahúsið er framleitt úr stáli og klætt með akrýlgleri. Uppgöngustiginn er framleiddur í samræmi við öryggisstaðla og nógu breiður til þess að tvær manneskjur geti staðið hlið við hlið í þrepunum. Þrepin eru lokuð og með sérstökum raufum til þess að leiða vatn í burtu þannig að það drjúpi ekki niður á næsta mann fyrir neðan í stiganum. Stigahúsið er hitað upp með blásara. 

Það eru forréttindi að taka þátt í uppbyggingu velferðar á forsendum verðmætasköpunar. Þannig tryggjum við sjálfbæra sókn, til heilla fyrir íbúa. Markmiðið er ætíð velferð þeirra. 

Fulltrúar D lista

Gestur Þór Kristjánsson – Forseti bæjarstjórnar

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir – Bæjarfulltrúi 

Grétar Ingi Erlendsson – Formaður bæjarráðs

Erla Sif Markúsdóttir – Bæjarfulltrúi

Írena Björk Gestsdóttir – Formaður íþrótta- og tómstundanefndar

Davíð Arnar Ágústsson – Varaformaður íþrótta- og tómstundanefndar

Oskar Rybinski – Nefndarmaður í íþrótta- og tómstundanefnd