Landeldisfyrirtækið GeoSalmo og Íslenska Kokkalandsliðið hafa skrifað undir samstarfssamning. Meginmarkmiðið með honum er að styrkja starf beggja aðila með þróun á hágæðavörum úr laxi framleiddum úr landeldi á Íslandi. Matreiðslumenn Kokkalandsliðsins munu koma að vöruþróun og markaðsstarfi GeoSalmo frá upphafi og fyrirtækið verður á sama tíma einn af aðalbakhjörlum landsliðsins.

Jens Þórðarson framkvæmdastjóri GeoSalmo:

“Við erum afar stolt af því að hefja þetta samstarf við Kokkalandsliðið. Að fá suma af fremstu matreiðslumönnum landsins til liðs við okkur gefur okkur einstakt tækifæri til að þróa hágæða landeldislax sem uppfyllir ströngustu kröfur og væntingar – bæði hér heima og á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta samstarf, sem byggir á sameiginlegum metnaði fyrir gæðum og nýsköpun, er mikilvægur hluti af okkar vegferð og vöruþróun. Með aðkomu Kokkalandsliðsins tryggjum við að við nýtum tækifærið til fullnustu og að okkur takist að skapa vöru sem á heima á bestu veitingastöðum heims.”

Þórir Erlingsson framkvæmdastjóri Kokkalandsliðsins:

„Við hlökkum mikið til samstarfsins og að fá að koma að vöruþróun GeoSalmo á næstu árum.  Hugmyndir GeoSalmo um uppbyggingu á landeldi og hvernig nýta skuli allar mögulegar afurðir úr framleiðslunni passa algjörlega við okkar markmið um nýtingu hráefnis. Kokkalandsliðið hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem eitt af bestu landsliðum heimsins og stór hluti af þessum árangri er að við horfum langt fram í tímann eins og við gerum með þessum samningi við GeoSalmo“.

Um GeoSalmo

GeoSalmo áformar að reisa í nokkrum áföngum allt að 33.000 tonna laxeldisstöð á landi við Þorlákshöfn. Fyrirtækið stefnir að því að verða leiðandi í landeldi á Íslandi með áherslu á að starfsemi þess sé í sátt við umhverfi og samfélag. Fyrirtækið hefur lokið umhverfismati, tryggt sér langtíma raforkusamning við Orku Náttúrunnar og lokið öðrum undirbúningi sem gert hefur því kleift að hefja framkvæmdir.

Um Kokkalandsliðið

Íslenska Kokkalandsliðið er skipað hæfileikaríkustu kokkum landsins. Markmið liðsins er að vera sterk eining sem getur keppt við bestu kokka heims. Kokkalandsliðið ætlar sér að vera leiðandi kraftur í að styrkja faglega matreiðslu, auka áhuga ungmenna á matreiðslu og vera fyrirmynd í íslenskri matarhefð. Allir meðlimir landsliðsins eru reyndir fagmenn.