HYDROS Ölfus ehf. var stofnað í ágúst 2024 í þeim tilgangi að tryggja sjálfbæra notkun vatns á svæðinu, sem og að afla og miðla upplýsingum tengdum vöktun grunnvatns. Stofnendur félagsins eru allir helstu notendur auðlindarinnar í og við Þorlákshöfn.
Vatnsauðlindin í Ölfusi er ein sú öflugasta á landinu öllu og liggur til grundvallar verðmætaskapandi verkefna sem spanna allt frá fiskeldi yfir í drykkjavöruframleiðslu. Lauslega áætlað má gera ráð fyrir nýtingu allt að 65 þúsund lítra á sekúndu af fersku vatni og jarðsjó á næstu árum og því mikilvægt að tryggja vöktun og stýringu auðlindarinnar á heildrænan máta. Þannig verður sjálfbærni og hagsæld best tryggð. Samningur HYDROS við Vatnsboranir ehf. er liður í markvissri uppbyggingu skilvirkrar stýringar á vatns- og sjótöku á svæðinu og leggur grunn að sjálfbærri nýtingu ferskvatnsauðlindarinnar.

Helstu verkefni HYDROS Ölfus ehf.
Félagið mun vinna að fjölbreyttum verkefnum sem miða að sjálfbærni og ábyrgri notkun grunnvatnsauðlindarinnar.
- Skipulag og stefnumótun: Mótun langtímaáætlana fyrir vöktun og notkun grunnvatns.
- Vöktun grunnvatns: Gerð og innleiðing sameiginlegrar vöktunaráætlunar.
- Rannsóknarboranir: Borun rannsóknarhola til gagnasöfnunar.
- Vöktunarkerfi: Uppsetning og rekstur vöktunarkerfa fyrir ferskt, ísalt og salt vatn.
- Gagnasöfnun: Stofnun sameiginlegs gagnagrunns fyrir samningsaðila.
- Greining og ráðgjöf: Veita faglega greiningu og ráðgjöf til aðila sem tengjast verkefninu.
- Samskipti við opinberar stofnanir: Samstarf við m.a. Orkustofnun um notkun og stýringu vatnsauðlinda.
- Umsagnir um verkefni: Mótun sameiginlegra umsagna vegna fyrirhugaðra verkefna sem varða vatnsauðlindir.
Stjórn HYDROS Ölfus ehf. er skipuð fulltrúum stofnaðila sem munu annast stjórn og stefnumótun félagsins milli hluthafafunda. Félagið hefur þegar gert samkomulag við Ölfus Cluster um umsjón daglegs reksturs fram að fyrsta aðalfundi, sem haldinn verður fyrir lok júní 2025.