Frjálsíþróttastarf endurvakið hjá Umf. Þór – Hanna Dóra Höskuldsdóttir þjálfari tekin tali

Frjálsíþróttadeild Umf. Þórs hefur nú verið endurvakin og ráðinn nýr þjálfari en hún heitir Hanna Dóra Höskuldsdóttir og kemur frá Stóra-Ármóti í Flóahreppi. Hafnarfréttir fóru á stúfana og fengu að kynnast þessari hressu og skemmtilegu stelpu. Hún er mikill fengur fyrir frjálsíþróttastarfið í Þorlákshöfn og afar mikilvægt að fá þjálfara til starfa sem vinnur af hugsjón og áhuga á frjálsum íþróttum.

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér

Ég heiti Hanna Dóra Höskuldsdóttir og er 19 ára. Ég bý og hef alltaf búið á Stóra-Ármóti í Flóahreppi ásamt foreldrum mínum og systkinum. Við erum með 50 mjólkandi kýr og 140 kindur, einnig erum við með nokkra hesta og það kemur fyrir að maður skelli sér á bak þótt þeir séu líka bara fínir að bíta vegkantana. Í vor varð ég stúdent af íþróttalínu í FSu en er nú á fyrsta ári í íþrótta- og heilsufræði í Háskóla Íslands. Ég stefni á að færa mig mögulega í sjúkraþjálfarann á einhverjum tímapunkti.  

Hvað með þína íþróttaiðkun? Hver er þín sterkasta og uppáhaldsgrein? Geturðu rifjað upp skemmtilegt augnablik frá þínum ferli?

Ég stunda frjálsar íþróttir af miklum krafti og hef síðan árið 2017 æft hjá Umf. Selfoss. Þar áður var ég í fimleikum til margra ára. Ég mæti á æfingar 6 sinnum í viku og finnst það alltaf jafn gaman, þetta er svo fjölbreytt íþrótt og einhvern veginn geta allir fundið eitthvað sem hentar þeim. Í dag æfi ég mest kringlukast en það er mín uppáhalds og sterkasta grein eins og staðan er núna. Mér finnst margar greinar skemmtilegar í frjálsum og var því oft að keppa í sjöþraut sem inniheldur 100m grind, hástökk, langstökk, kúluvarp, spjótkast, 200 m hlaup og 800 m hlaup. Það sem lagði smá strik í reikninginn þar eru meiðsli sem ég hef verið að glíma við en síðastliðið ár er ég að koma mér til baka úr erfiðum ökklameiðslum. Ég gat ekki æft neitt nema kastgreinar í langan tíma sem gerði það eiginlega að verkum að ég er farin að leggja mikla áherslu á kringlukast og hefur það líka gengið vel á utanhússtímabilinu í sumar. En ég komst á Norðulandameistaramót U20 í Svíþjóð í sumar sem var mitt fyrsta landsliðsverkefni. Það stendur klárlega mest uppúr á mínum ferli eins og staðan er í dag. Ákveðinn draumur að fá að keppa fyrir þjóðina og vonandi verða fleiri tækifæri eins og þessi í framtíðinni. Þetta er eitthvað sem ég hefði aldrei trúað fyrir nokkrum árum að ég myndi gera, en það hafðist þó. Langþráður draumur varð að veruleika og segi ég því bara við komandi kynslóðir og unga krakka í dag að gefast aldrei upp. Það getur allt gerst ef þú ert með viljann fyrir verkið. 

Nú kepptir þú í Skólahreysti með góðum árangri. Segðu okkur frá því.

Árið 2022 þegar ég var í 10. bekk í Flóaskóla var ég í sigurliði Skólahreysti þar sem ég keppti í hraðaþrautinni. Það var og er mikill áhugi og metnaður fyrir Skólahreysti í Flóaskóla og keppti ég þrisvar sinnum, eða öll þau ár sem ég mátti keppa og komumst við alltaf í úrslit en sigurinn var sætur svona áður en maður útskrifaðist. 

Að starfinu hérna í Þorlákshöfn. Hvernig upplifir þú að taka þátt í að endurvekja starfið? Hver eru helstu markmið þín sem þjálfari? Hvers vegna ættu krakkar í Þorlákshöfn að prófa frjálsar íþróttir?

Það eru þónokkur ár sem starfið í Þorlákshöfn hefur legið niðri. Mér þykir mjög gaman að vera partur af því að endruvekja frjálsíþróttaiðkun í Þorlákshöfn. Mjög leiðinlegt að þetta hafi legið niðri í nokkur ár og því hef ég mikinn metnað að koma þessu aftur í gang. Þjálfarinn minn á Selfossi, Rúnar Hjálmarson, var með nokkrar æfingar í sumar og vakti það einhvern áhuga hjá krökkum. Hann spurði þá hvort ég væri ekki til í að taka þjálfunina að mér og það var bara ekkert annað í stöðunni en að gera það. Það er gaman að koma inn í nýjan hóp af krökkum. Ég hef sjálf verið að þjálfa hjá Umf. Þjótanda sem hefur gengið vel en það er alltaf gaman að breyta svolítið til. 

Frjálsar íþróttir er eitthvað sem allir þurfa á að halda. Hvaða íþrótt sem þú æfir þá geturðu tekið eitthvað úr frjálsum til að gagnast í þinni íþrótt. Grindadrillur er ein af mörgum æfingum sem allt íþróttafólk ætti að gera. Það styrkir vöðva í mjöðmum og fótum, eykur liðleika og jafnvægi. Stökk eins og þrístökk geta einnig gagnast í öllum íþróttum þar sem það er verið að æfa snerpu og sprengikraft ásamt samhæfingu, jafnvægi og þoli gagnvart ákveðnu höggi. Ég hvet því alla krakka til þess að koma að æfa frjálsar, hvort sem þau æfa aðrar íþróttir eða ekki þá er þetta fjölbreytt og skemmtilegt starf sem kemur öllum að góðum notum. 

Markmið mitt sem þjálfari er í raun bara að koma öllum á þann stað sem þau vilja. Það hafa ekki allir sömu markmið í íþróttum sem er fullkomlega eðlilegt. Sumir eru að æfa til þess að verða atvinnumenn á meðan aðrir æfa fyrir félagsskap eða bara vegna þess að það er gaman. Ég vil því leggja fram þjálfunina mína á þann hátt að það henti hverjum sem er, hafa hana fjölbreytta og skemmtilega og vinna með hverjum og einum iðkanda á sinn hátt. Auðvitað hvetur maður alla til þess að prófa allar greinar og prófa að keppa einhverntíma, en ef það hentar ekki iðkandanum þá er alltaf hægt að komast milliveginn og gera það sem iðkanda og þjálfara líður best með í sameiningu. 

Hefurðu einhver skilaboð til foreldra og fjölskyldna sem gætu hvatt þau til að styðja við iðkunina?

Fjölskyldan og vinir eru eitt það mikilvægasta við íþróttir. Þau styðja best við mann bæði þegar það gengur vel og þegar það gengur illa. Það skiptir miklu máli að það sé fólk á bakvið mann til að styðja sig í sinni íþrótt og hvet ég því alla foreldra og fjölskyldur að styðja sína krakka í því sem þau gera, hvort sem það eru frjálsar íþróttir eða eitthvað annað. Einnig er mikilvægt þegar krakkar prófa nýjar íþróttir að foreldrar og fjölskylda styðji við þau til að byggja þeirra sjálfstraust upp í nýju íþróttinni. Krakkar koma oft heim eftir æfingar og segja frá því hvað var gert á æfingu og þá er líka mikilvægt að foreldrar hlusti og sýni áhuga fyrir því sem krakkarnir eru að gera. Ef krakkarnir ykkar hafa áhuga að prófa nýjar íþróttir hvet ég ykkur sem foreldra að skrá þau í frjálsar. Búast má við skemmtilegu og fjölbreyttu verkefni í vetur sem vonandi gengur vel áfram til næstu ára.

Hafnarfréttir þakka Hönnu Dóru kærlega fyrir spjallið og hvetja börn og ungmenni til að prófa frjálsar íþróttir. Framtíðin er björt með þennan unga og metnaðarfulla þjálfara við stýrið. Ritstjóri Hafnarfrétta þekkir af eigin raun kosti þess að æfa frjálsar íþróttir en þegar undirrituð var að alast upp í Villingaholtshreppi hinum forna voru það einmitt frjálsar íþróttir sem voru aðalmálið. Ég get tekið undir það að í frjálsum geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Félagsskapurinn er þar hvað mikilvægastur og svo er maður ávallt að keppa við sjálfan sig og bæta sig smátt og smátt. Frjálsar íþróttir byggja upp sjálfstraust og veita ómælda gleði og styrk. Allir í frjálsar!