Nú í dag komu KF-menn í heimsókn á Þorlákshafnarvöll í bullandi fallbaráttuslag í mjög góðu veðri. Fyrir leikinn voru Ægismenn með 2 stig í 11.sæti 2. deildarinnar en KF með 1 stig og vermdu botnsætið. Liðin höfðu mæst 9 sinnum fyrir þennan leik og höfðu KF unnið 4, 3 leikir endað með jafntefli og Ægir sigrað 2.
Leikurinn fór rólega af stað en voru Ægismenn þó með öll tök á leiknum og voru gestirnir að norðan ekki að skapa sér nein færi. Ægismenn áttu nokkur hálffæri en áttu erfitt með að koma sér í skotfæri og láta vaða á mark KF. Staðan 0-0 í hálfleik.
Það dróg til tíðinda á 53. mínútu þegar Ægismenn fengu aukaspyrnu á mjög hættuleg stað fyrir utan vítateig gestanna. Jannik Christian Eckenrode tók þá spyrnu og setti hana í markmannshornið, en markvörður KF tók skrefið í hina áttina og átti þar af leiðandi aldrei séns í hann. Stönginn inn fór boltinn og staðan 1-0 heimamönnum í vil.
Eftir markið áttu bæði lið hálffæri en náðu ekki að skapa sér nein hættuleg færi af viti. Svo undir lok leiks þá fór að liggja á Ægismönnum og settu KF alla sína menn fram til að reyna að kreista fram stig úr þessum leik. Þeim brást þar bogalistin og gengu heimamenn af velli með sigur og hreint lak.
Þessi sigur er sá fyrsti í Íslandsmótinu 2016. Ægir situr enn í 11. sæti 2.deildar með 5 stig en eru í töluvert betri stöðu heldur en fyrir leik.
Næsti leikur er gegn Völsungi á Þorlákshafnarvelli laugardaginn 9.júlí og hvetjum við alla til að mæta og styðja liðið áfram þar. En það verður hörkuleikur líka þar sem Völsungur situr í 10. sæti deildarinnar, sæti ofar en Ægir.
Áfram Ægir