Ægismenn áttu ekki í miklum erfiðleikum með Völsung á Þorlákshafnarvelli í dag. Leikurinn endaði 3-0 Ægi í vil en liðin eru bæði í mikilli botbaráttu í 2. deildinni.
Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttu margar góðar sóknir á fyrstu 20 mínútum leiksins en þó engin dauðafæri. Það var síðan á 24. mínútu sem Ægismenn náðu að brjóta ísinn þegar Guðmundur Garðar Sigfússon átti glæsilegan skalla beint í fjærhornið eftir frábæra fyrirgjöf af hægri kantinum.
Áfram héldu Ægismenn að sækja og lítið að frétta hjá gestunum frá Húsavík sem virtust finna fáar leiðir gegnum Ægisvörnina sem var þétt í dag.
Tveimur mínútum fyrir hálfleik bættu Ægismenn við forystu sína þegar Daniel Marco Kuczynski skoraði flott mark eftir stoðsendingu frá dómara leiksins. Boltinn hafði viðkomu í dómarann í sendingunni fyrir markið en þrátt fyrir það verður að teljast mjög líklegt að annar Ægismaður hefði sloppið í gegn ef dómarinn hefði ekki verið fyrir. Staðan 2-0 í hálfleik og útlitið mjög gott.
Ægismenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og ekki leið á löngu þar til þriðja markið leit dagsins ljós. Aftur var það Daniel Marco sem bætti við öðru marki sínu á 51. mínútu og í raun geirnegldi sigur heimamanna enda staðan orðin 3-0.
Eftir þriðja markið fór leikurinn að hægjast og liðin skiptust á sóknum en fá hættuleg færi. Ægismenn fengu þó nokkur tækifæri til að bæta við fjórða markinu en án árangurs og því glæsilegur 3-0 sigur Ægis í höfn.
Með sigrinum í dag eru Ægir og Völsungur jöfn að stigum í 10.-11. sæti deildarinnar. Næsti leikur Ægis er útileikur gegn Magna næstkomandi laugardag.