Hafdís Þorgilsdóttir sem hefur verið ein helsta dagmamman í Þorlákshöfn seinustu áratugina hætti störfum þann 12. júlí sl.
Það var árið 1995 sem Hafdís hóf störf sem dagmamma eða fyrir 21 ári síðan og á þessum tíma hefur hún oftast verið með fimm börn hjá sér frá sex mánaða aldri til tveggja ára.
„Upphafið af því að ég byrjaði sem dagmamma var að ég tók að mér að passa fyrir vini og svo komu fyrirspurnir frá fleiri foreldrum hvort ég gæti tekið að mér að passa. Þannig byrjaði þetta allt saman,“ sagði Hafdís í samtali við Hafnarfréttir.
„Minn síðasti vinnudagur var 12. júlí og var það mjög sérstakur dagur, að kveðja börnin og foreldra með það í huga að taka ekki á móti þeim hér heima,“ sagði Hafdís.
Börn og foreldrar í Þorlákshöfn munu þó geta notið starfskrafta hennar og nærveru áfram þar sem hún hefur verið ráðin til starfa á Leikskólann Bergheima og byrjar þar 10. ágúst nk. Það er því sannkallaður reynslubolti að hefja störf á leikskólanum.
„Í þessi 21 ár hefur þetta starf veitt mér ómælda gleði og ánægju og hef ég myndað tengsl við yndisleg börn og foreldra. Takk fyrir mig,“ sagði Hafdís að lokum.