Jónas Sigurðsson mun mæta á Hafnardaga í Þorlákshöfn á laugardagskvöldið ásamt Ritvélum framtíðarinnar og munu þau halda tónleika í reiðhöllinni kl. 21:00.
Tónleikarnir eru hluti af glæsilegri dagskrá Hafnardaga og verður frítt inn á þá en eins og allir Þorlákshafnarbúar vita þá verður rífandi stemning í reiðhöllinni.
Jónas og Ritvélarnar eru nýkomin heim úr tónleikaferð þar sem þau fóru hringinn í kringum landið á 7 dögum og spiluðu alls 8 tónleika og allstaðar fyrir fullum húsum, enda Jónas og Ritvélarnar margrómuð fyrir lifandi flutning á lögum og textum hans.
Fyrir tónleikaferðina kom út safndiskur með vinsælustu lögum Jónasar ásamt áður óútgefnu efni og lifandi tónleikaupptökum. Á geisladisknum er svo mynd tekin af Davíð Þór Guðlaugssyni og er hún af veginum góða til Þorlákshafnar.
Einnig voru framleiddir límmiðar með textabrotum úr lögum Jónasar sem slógu svo rækilega í gegn að það þurfti að framleiða meira á þriðja degi tónleikarferðarinnar og nú þegar þetta er skrifað er þriðja pöntun í framleiðslu. Límmiðana er hægt að líma á veggi, spegla, gler, hljóðfæri, bíla eða þar sem fólki dettur í hug. Þarna má finna textabrot eins og Hamingjan er hér!, Þessi skítur er ekki að fara að moka sig sjálfur (mjög vilsæll í unglingaherbergin), Þessi endalausi vegur endar vel og fleiri og fleiri. Á tónleikunum verður að sjálfsögðu hægt að festa kaup á þessum varning.
Eins og fyrr segir hefjast tónleikarnir klukkan 21 á laugardagskvöldið og geta tónleikagestir tekið með sér stóla til að hvíla þreyttar lappir.