Mjög góð mæting var á fund um kvótakerfið og áhrif þess sem Píratar héldu í Þorlákshöfn í gærkvöldi en yfir 70 manns mættu á fundinn.
Ástæðan fyrir fundin var sala Hafnarnes Ver á 1.600 tonna kvóta úr bæjarfélaginu og fóru Píratar yfir sjávarútvegsstefnu sína og þá galla sem eru í kerfinu í dag.
Birgitta Jónsdóttir, sem ólst að hluta upp í Þorlákshöfn á H-götu 12, sagði að það væri hræðilegt að sjá hvernig hefur farið fyrir þeim þorpum sem byggja sitt á fiski og trúir hún ekki að þetta hafi gerst í Þorlákshöfn. Telur hún mikilvægt að gera breytingar á kerfinu svo að fleiri þorp lendi ekki sömu stöðu.
Þórólfur Júlían Dagsson, sem er í 3. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi, fór yfir hugmyndir Pírata varðandi kvótakerfið. Hugmyndirnar snúa að því að ríkið bjóði aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og að leigugjaldið renni í ríkissjóð. Að auki skal allur fiskur fara á markað, endurvigtun útgerða bönnuð og að bannað verði að láta sjómenn taka þátt í leigu á aflaheimildum. Píratar telja mikilvægt að komið verði í veg fyrir að útgerðir notist við verðlagsþróunarverð og vilja þeir gefa handfæraveiðar frjálsar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu. Að auki vilja þeir að störf Hafrannsóknarstofnunar verði gerð gagnsæ, að fulltrúar í ráðgjafarnefnd hennar verði ekki skipaðir hagsmunaaðilum og að Landhelgisgæslan verði stórefld.
Álfheiður Eymarsdóttir, sem er í 4. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi, fór yfir þá ágalla sem eru í því kerfi sem við búum við í dag. Sagði hún að inn í kerfið væru innbyggðir ágallar sem valda því að heilu byggðarlögin leggjast á hliðina vegna sölu á kvóta eins og gerst hefur í Þorlákshöfn í ár.
Hannes Halldórsson, starfsmaður í fiskvinnslu Hafnarnes VER, fór yfir sjónarhorn starfsmanna, en hann frétti í fjölmiðlum að vinnustaður sinn hafi selt allan sinn kvóta í burtu. Sagði hann að margir starfsmenn hafi hætt eftir þessar fréttir þar sem erfitt sé að vinna við aðstæður þar sem óvissan er jafn mikil og er í Hafnarnes VER í dag. „Nú hafa allir áhyggjur af því hvað gerist eftir hádegi“ sagði Hannes Halldórsson.
Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar, útskýrði ályktun sem bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss sendi frá sér vegna sölunnar. Í hans máli kom fram að ekki væri einungis um störf starfsmanna fyrirtækisins að ræða heldur fjölda afleiddra starfa í sveitarfélaginu. Áréttaði hann að mikilvægt væri að fólk gerði sér grein fyrir því að þeir sem starfa í sjávarútvegi séu að reyna að gera sitt besta og að þeir einstaklingar séu ekki mafíósar. Það sagði hann vegna ummæla sem komu fram í erindi Sighvats Lárussonar. En hann líkti Þorsteini Baldvinssyni, Guðbjörgu Matthíasdóttur og Páli Jóhanni Pálssyni við Erdogan Tyrklandsforseta sem stjórnar öllu með kúgun, ótta og öryggisleysi. Nefndi Sighvatur einnig að Erdogan væri með stjórnmálaflokk og fjölmiðla á bakvið sig. Vildi hann meina að það væri vissulega stigsmunur á milli Tyrklands og Íslands en að þetta væri samt sem áður það sama. Fólk þorir ekki að segja neitt og er stjórnað í gegnum kúgun, þöggun, ótta og öryggisleysi sagði Sighvatur.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, nefndi að sala á kvóta sem þessum hafi gerst alltof oft og út um allt land. Í kjölfar svona frétta er mikið talað um slæman rekstur fyrirtækja og sveitarfélaga en fólkið sem starfar í fyrirtækjunum gleymist oft og segir hann mikilvægt að huga að því fólki. Sigurður sagði að það væri slæmt þegar starfsmenn fá fréttir sem þessar í gegnum fjölmiðla og leiðinlegt sé að heyra að það hafi verið aðili í sveitarfélaginu sem hefði viljað kaupa kvótann en að samt hafi hann farið í burtu. Vill hann sjá breytingar á forkaupsréttarákvæðinu og að sveitarfélögin fái tíma til að finna aðila til að ganga inn í kvótakaup sem þessi. Telur hann mikilvægt að lausn fáist í þessi mál svo við getum búið sátt í samfélaginu.