Höttur frá Egilsstöðum voru í heimsókn á Þorlákshafnarvelli í dag í góðu veðri. Ægismenn sátu fyrir leik í ellefta sæti með ellefu stig og þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að forðast það að falla úr deildinni.
Leikurinn fór illa af stað fyrir heimamenn þar sem Brynjar Árnason fyrirliði Hattarmanna skoraði þegar einungis þrjár mínútur voru liðnar af leiknum.
Eftir þetta mark tóku heimamenn öll völd á leiknum og voru að skapa sér fullt af fínum færum en þau rötuðu ekki í mark gestanna í fyrri hálfleik. Staðan 0-1 Hetti í vil þegar leikmenn gengu inn í hálfleik.
Það var ljóst í hvað stemmdi þegar liðin mættu út á völlinn eftir hálfleiksræðurnar en Ægismenn sýndu enn meiri yfirburði á vellinum og voru gestirnir að austan algjörir farþegar í byrjun seinni hálfleiks. Ægismenn óðu í færum og bar það loks árangur á 62. mínútu þegar Walesverjinn Jonathan Hood komst í gegn og hamraði boltann í net gestanna. Staðan 1-1.
Eftir markið héldu Ægismenn áfram að keyra á gestina og skoruðu strax aftur á 68. mínútu en þar var Jonathan Hood aftur á ferðinni þegar hann gaf boltann inn í teiginn og lak boltinn framhjá öllum og inn í markið. Staðan orðin 2-1 Ægi í vil.
Eftir þetta róaðist leikurinn og fóru Hattarmenn að komast inn í leikinn. En Ægisliðið varðist vel og héldu út. Fjórði sigur liðsins á tímabilinu því staðreynd og kom hann á mikilvægum tímapunkti.
Ægir situr enn í ellefta sæti en eru með 14 stig aðeins þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni.
Ægir vilja einnig þakka öllum þeim sem mættu á leikinn í dag bæði til að styðja liðið og til að styrkja málefni fyrrum fyrirliða Ægis, Liam Killa.
Næsti leikur er gegn ÍR fimmtudaginn næsta í Breiðholtinu.
Áfram Ægir.
AÖS