Lúðrasveit Þorlákshafnar mun standa fyrir sannkölluðum stórtónleikum laugardaginn 5. október í Þorlákshöfn þar sem Fjallabræður, 200.000 Naglbítar og Jónas Sigurðsson ásamt ritvélum framtíðarinnar munu flytja sín vinsælustu lög. Þeir verða ekki aldeilis einir því allar lúðrasveitir landsins munu rugla saman reitum sínum og mynda þrjár stórar lúðrasveitir sem munu sameina krafta sína með þessum frábæru listamönnum. Sérstakur gestur á tónleikunum er söngvarinn Sverrir Bergmann og mun hann verða skrautfjöður annars glæsilegra Fjallabræðra.
Þessir tónleikar eru hluti af landsmóti Sambands íslenskra lúðrasveita sem stendur yfir í Þorlákshöfn 4.-6. október en Lúðrasveit Þorlákshafnar fékk það verkefni að halda utan um skipulagningu og undirbúning þessa landsmóts, sem er það 21. í röðinni. Þegar stjórn L.Þ kom saman til að hefjast handa við þá vinnu þótti okkur landsmótið þurfa að endurspegla þann mikla uppgang hjá lúðrasveitum landsins síðustu misseri sem einkennst hefur af samstarfi þeirra við suma af vinsælustu popptónlistarmönnum landsins. Útkoman var sem fyrr segir, að skipta öllum sveitum landsins upp í þrjár lúðrasveitir sem hver æfir upp prógram með þessum poppurum sem allir hafa reynslu af því að vinna með lúðrasveitum og slá upp stórtónleikum!
Þorlákshafnarbúar mega búast við því að heyra lúðrablástur úr öllum skúmaskotum i þorpinu nánast á hvaða tíma sólarhringsins sem er þessa helgi og biðjum við ykkur fyrirfram afsökunar á því ef það veldur einhverjum óþægindum. En að sjálfsögðu vonumst við til þess að allir þorpsbúar taki þátt í þessari gleði með okkur, mæti á tónleikana og styðji þannig við lúðrasveitina ykkar. Einnig viljum við benda þeim sem hafa áhuga á að aðstoða á einn eða annan hátt við framkvæmd landsmótsins, að setja sig í samband við Lúðrasveitina t.d. á Facebook síðu hennar eða við einhvern af meðlimum sveitarinnar. Margar hendur vinna létt verk eins og sýndi sig þegar við héldum útgáfutónleikana í október 2012 og viljum við enn og aftur þakka þeim fjölmörgu sem lögðu þar hönd á plóg. Við erum ótrúlega þakklát þeim mikla stuðning sem við finnum fyrir frá ykkur kæru Þorlákshafnarbúar!
Miðasala hefst á midakaup.is 17. september en sérstök forsala fer fram hjá lúðrasveitarmeðlimum landsins og hefst hún 9. september. Við hvetjum ykkur til að nálgast miða fyrr heldur en síðar því næsta víst er að færri munu komast að en vilja.
Tónleikarnir hefjast kl. 19.00 í íþróttamiðstöð Þorlákshafnar laugardaginn 5. október og mun húsið opna kl. 18.30. Sætin eru ónúmeruð.
F.h. Lúðrasveitar Þorlákshafnar,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir