Einungis þrír leikir eru eftir hjá Ægismönnum á þessu tímabili en í kvöld fá þeir topplið HK í heimsókn á Þorlákshafnarvelli. Leikurinn hefst að þessu sinni klukkan 18 þar sem sú gula er farin á láta minna fyrir sér fara þessa dagana.
Ægir þarf nauðsynlega á sigri að halda í kvöld þar sem einungis fjögur stig skilja að Hött og Ægi, en Höttur situr í næst neðsta sæti deildarinnar og þar með fallsæti.
Heimavöllurinn hefur reynst Ægismönnum erfiður í sumar að undanskildum síðasta heimaleik gegn Sindra á dögunum, en þá fóru heimamenn á kostum og unnu sannfærandi 5-1 sigur. Það verður því vonandi að sama barátta verði upp á teningnum í kvöld gegn HK þar sem ljóst er að Ægir þarf á toppleik að halda til að taka stigin þrjú og þar með koma sér lengra frá fallsætunum.
Ægismönnum veitir ekki af stuðningi úr stúkunni í þessum næst síðasta heimaleik sumarsins og því um að gera að fjölmenna á völlinn í sólarsælunni sem veðurguðirnir eru að spá í Þorlákshöfn.