Lýsi hf. þarf að taka ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag fiskþurrkunarstarfsemi í Þorlákshöfn eigi síðar en í lok mars 2017 skv. samningi sem fyrirtækið gerði við Sveitarfélagið Ölfus í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Samningur þess efnis var undirritaður 26. október sl.
Í lok mars 2017, eða eftir rúma fimm mánuði, skal því liggja fyrir hvort Lýsi hyggist „flytja þurrkstarfsemi sína á þegar skipulagt svæði vestan Þorlákshafnar eða hvort verksmiðjunni verði lokað án frekari uppbyggingar í Ölfusi.“
Í samningnum kveður á að ef ákveðið verður að loka verksmiðjunni eða ákvörðun um flutning liggur ekki fyrir í lok mars 2017 skal Lýsi hf. loka verksmiðjunni eigi síðar en fyrir lok maí sama ár. Ef ákveðið verður að flytja starfsemina á nýjan stað vestan Þorlákshafnar verði starfsemi að Unubakka 26 stöðvuð eigi síðar en fyrir lok júní 2018.
Á þeim tíma sem verksmiðjan verður starfrækt í Þorlákshöfn hefur fyrirtækið einungis leyfi til að framleiða úr 40 tonnum af hráefni á sólarhring og skal verksmiðjunni lokað í júlí og ágúst en þau ákvæði er einnig að finna í starfsleyfi verksmiðjunnar sem gildir út júní árið 2018.
Lengi hefur verið kallað eftir aðgerðum til að koma í veg fyrir lyktamengun í Þorlákshöfn og eru forsvarsmenn sveitarfélagsins bjartsýnir og vona að starfsemi Lýsis hf. verði flutt á svæði þar sem starfsemin getur vaxið og dafnað án þess að valda bæjarbúum óþægindum.