Aðalfundur Golfklúbbs Þorlákshafnar var haldinn 19. Janúar s.l. og þótti takast mjög vel. Einhugur var í aðalfundargestum enda flestar lykiltölur klúbbsins jákvæðar. Þannig var 34% aukning vallargesta á síðasta ári enda veðurfar bæði vor og haust með ágætum. Talsverð aukning var á heimsóknum kylfinga af höfuðborgarsvæðinu og þó tæplega megi kalla slíka kylfinga „ferðamenn,“ þá er ljóst að golfvöllurinn dregur að sér fólk til bæjarins.
Á síðasta ári varð einnig fjölgun í klúbbnum um 20 % sem þykir ágætt hjá tiltölulega fámennum golfklúbbi. Nokkur hluti nýrra félaga kom af höfuðborgarsvæðinu. Fjárhagsleg afkoma klúbbsins var ágæt og í samræmi við áætlanir, en mikill kostnaður fylgir því að reka glæsilegan 18 holu golfvöll og greiða fyrir nýframkvæmdir á vellinum. Verið er að búa til nýjar brautir í stað þriggja brauta sem standa næst sjávarkambinum, en ágangur sjávar og sandrok hefur stundum farið illa með þær brautir. Mikil vinna fylgir þessum framkvæmdum og hafa bæði vallarstarfsmenn og félagar klúbbsins unnið ötult starf. Slíkar breytingar eru þó ekki framkvæmanlegar án góðs stuðnings bæjarfélagsins.
Edwin Roald Rögnvaldsson, golfvallarhönnuður var gestur aðalfundarins og fór hann vel og vandlega yfir þær breytingar sem verið er að gera á vellinum. Óhætt er að segja að klúbbfélagar séu spenntir fyrir þessum breytingum og bíði með óþreyju eftir sumrinu og fá að leika á nýjum brautum.
Tvö fjölmenn GSÍ unglingagolfmót voru haldin á golfvellinum í sumar og var góð þátttaka í þeim. Þá voru haldin fjölmörg innanfélagsmót, opin mót að ógleymdu meistaramóti klúbbsins þar sem Guðmundur Karl Guðmundsson stóð uppi sem sigurvegari í meistaraflokki og var í kjölfarið útnefndur kylfingur ársins.
Aðalfundurinn samþykkti tillögu stjórnar um ýmis gjöld. Þannig verður ársgjald í klúbbnum aðeins 48 þúsund krónur og fullyrða má að það er með því allra lægsta sem þekkist á Íslandi. Makar félaga og 67 ára og eldri greiða einungis 24 þúsund króna ársgjald eða hálft gjald. Tekið er vel á móti nýliðum í klúbbnum og sýnir það best að ársgjald nýliða fyrstu tvö árin er samtals 48 þúsund krónur. Loks má nefna að börn og unglingar að 20 ára aldri greiða ekki ársgjald í klúbbinn.
Guðmundur Baldursson var endurkjörinn formaður klúbbsins og aðrir í stjórn eru Ingvar Jónsson, Magnús Joachim Guðmundsson, Magnús Ingvason og Óskar Logi Sigurðsson. Í varastjórn eru þau Ásta Júlía Jónsdóttir og Óskar Gíslason.