Júlí Heiðar: „Við vonum svo innilega að Suðurland og allir í Þorlákshöfn styðji við bakið á okkur“

Mynd: RÚV

Þorlákshafnarbúar munu eiga öflugan fulltrúa í undankeppni Eurovision annað árið í röð. Sá fulltrúi er engin annar en Júlí Heiðar Halldórsson en lag hans Get back home er eitt af þeim tólf lögum sem munu taka þátt í forkeppninni í ár.

Júlí Heiðar var ansi spenntur þegar Hafnarfréttir slógu á hann en á næstu dögum mun koma út myndband við íslenska útgáfu af laginu. Júlí Heiðar mun þó ekki flytja lagið einn og verður Sunnlendinga bragur á atriðinu.

„Á sviðinu með mér verða eingöngu Sunnlendingar. En með okkur Þórdísi verða Magnús Kjartan og Sigþór Árnason úr Stuðlabandinu, og systurnar Dagný Halla og Unnur Birna. Við vonum svo innilega að Suðurland og allir í Þorlákshöfn styðji við bakið á okkur þegar við förum á svið og kjósi sitt lag í úrslit.“

Forkeppnirnar verða haldnar 25. febrúar og 4. mars. Úrslitakvöldið verður svo 11. mars.

Hafnarfréttir óska Júlí til hamingju með virkilega gott lag og vonandi mun hann komast alla leið til að flytja lagið í Úkraínu í maí.

Hér að neðan má hlusta á báðar útgáfur lagsins, á ensku og íslensku.