Siglingar Mykines milli Þorlákshafnar og Rotterdam hafa verið í gangi frá því í byrjun apríl og í heildina hafa þær gengið mjög vel og ekki er gert ráð fyrir breytingum á siglingunum.
„Þetta er stórt verkefni fyrir Smyril Line og ekki síst fyrir sveitarfélagið og miðað við stærð verkefnisins þá hefur flest allt gengið upp. Flutningar hafa vaxið bæði í inn- og útflutningi og markaðurinn er að taka mjög vel í þennan nýja möguleika. Nú höfum við siglt á þessari leið í þrjá mánuði, skipið er að reynast vel, allt ferlið að slípast til og við horfum björtum augum framávið.“ sagði Linda Björg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo í samtali við Hafnarfréttir.
Mikill bílainnflutningur hefur verið með skipinu til landsins og hefur til að mynda Hekla samið við Smyril Line um allan sinn bílainnflutning.
Kostnaður við að flytja fólksbíl til landsins með Mykines er um 840 Evrur eða rúmlega 100.000 kr. á gengi dagsins í dag, inni í því eru öll gjöld fyrir utan skráningu hjá Samgöngustofu. Er þetta töluvert lægri kostnaður en gengur og gerist hjá öðrum skipafélögum sem bjóða upp á sambærilega þjónustu hér á landi.