Ægismenn unnu sterkan sigur á Vængjum Júpíters í 3. deildinni í knattspyrnu í kvöld en leikurinn fór fram á Þorlákshafnarvelli. Lokatölur urðu 4-0.
Leikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn og kom Oliver Ingvar Gylfason Ægismönnum yfir á 21. mínútu. Rétt fyrir hálfleik bætti Guðmundur Garðar Sigfússon við forskot Ægismanna og staðan því 2-0 í hálfleik.
Tíu mínútum fyrir leikslok skoraði Guðmundur Garðar sitt annað mark og kom Ægismönnum í 3-0. Pálmi Þór Ásbergsson gulltryggði síðan stóran sigur Ægis þegar hann skoraði á 90. mínútu.
Eftir leikinn sitja Ægismenn í 7. sæti deildarinnar með 18 stig og mæta næst Berserkjum á fimmtudaginn.