Þórsarar eru dottnir úr leik í bikarkeppni karla í körfubolta eftir 10 stiga tap gegn Tindastól en liðin mættust í 32-liða úrslitum á Sauðárkróki í kvöld.
Hægt er að fullyrða að afleiddur fyrri hálfleikur Þórsara sé ástæða tapsins en staðan var 52-29 fyrir heimamenn í hálfleik. Allt annað var uppi á teningnum hjá Þórsurum í síðari hálfleik og náði liðið að kroppa í forskot Tindastóls smátt og smátt og unnu til að mynda síðari hálfleikinn 32-47. Það dugði bara ekki til og lokatölur 84-76 gegn sterku liði Tindastóls.
Jesse Pellot Rosa fór út af meiddur í liði Þórs í upphafi síðari hálfleiks en fyrir það átti hann erfitt uppdráttar í leiknum og skoraði einungis 6 stig.
Adam Eiður Ásgeirsson átti frábæra innkomu í kvöld og var maður leiksins hjá Þórsurum en hann skoraði 21 stig og tók 6 fráköst á þeim 22 mínútum sem hann spilaði. Þá var Halldór Garðar Hermannsson flottur með 16 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar. Ólafur Helgi Jónsson kom næstur með 12 stig og 6 fráköst en aðrir leikmenn Þórs skoruðu minna.
Næsti leikur Þórs er á föstudaginn þegar liðið sækir Hauka heim á Ásvelli í Domino’s deildinni.