Ben Stiller, Cher og Icelandic Glacial hjálpa fórnarlömbum fellibylja

Hollywood-leikarinn Ben Stiller, söngkonan Cher og vatnsfyrirtækið úr Ölfusi, Icelandic Glacial Water, hafa tekið höndum saman og ætla að senda 600.000 vatnsflöskur til íbúa Púertó Ríkó og Bandarísku Jómfrúareyjanna eftir þær hörmungar sem fellibyljir ollu á svæðunum í síðasta mánuði.

Nú þegar hafa 500.000 flöskur verið sendar af stað til Puerto Rico og ættu þær að skila sér á næstu vikum.

„Þessi harmleikur hefur haft gífurleg áhrif á samfélögin og er vatn ein af grundvallarþörfunum til að koma undir sig fótunum að nýju,“ segir Jón Ólafsson forstjóri Icelandic Glacial Water í fréttatilkynningu um málið.

„Þessir tveir skelfilegu fellibyljir hafa eyðilagt Púertó Ríkó og Bandarísku Jómfrúareyjarnar og þurfa fjölskyldur að treysta á stuðning fólks um allan heim,“ segir Ben Stiller og segir jafnframt að hann ásamt Cher og Icelandic Glacial Water séu að veita íbúum svæðisins neyðaraðstoð á meðan íbúarnir vinna að því að endurbyggja samfélag sitt.

Þetta er í fjórða sinn sem Icelandic Glacial Water leggur hjálparhönd eftir náttúruhamfarir.