Frostfiskur hættir starfsemi í Þorlákshöfn

Fyrirtækið Frostfiskur, sem er einn stærsti vinnuveitandinn í Þorlákshöfn, hefur ákveðið að loka fiskvinnslu sinni í Þorlákshöfn og flytja alla starfsemina til Hafnarfjarðar, en þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld.

Frostfiskur hefur verið með starfsemi í Þorlákshöfn í 19 ár og lengi vel störfuðu vel yfir 100 manns í vinnslunni. Í dag starfa um 50 manns hjá fyrirtækinu en fyrr í haust var um 20 manns sagt upp.

Starfsemin verður flutt til Hafnarfjarðar í byrjun næsta árs en búið er að tilkynna öllu starfsfólki þá ákvörðun.

„Við þurfum að komast nær höfuðborgarsvæðinu eða hreinlega að kjarna okkur eins og við segjum. Að lækka kostnað, minnka flutningskostnað og komast í nýtt hús með nútímatækjum. Við reiknum með að vera með fjörutíu starfsmenn á nýja staðnum og væntanlega er einhver hluti af starfsfólkinu sem flytur með okkur. Við reiknum með að það henti ekki öllum að fara að vinna í Hafnarfirði. Þetta eru 40 kílómetrar hér á milli,“ sagði Steingrímur í samtali við Stöð 2.

Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri sveitarfélagsins var að vonum óánægður með þessa ákvörðun fyrirtækisins.

„Þetta er alveg grautfúlt. Það er bara þannig. Það eru fjölskyldur sem koma þarna við sögu og fólk sem hefur búið hér lengi. Það kemur rót á fólk. Það held ég að sé alveg ljóst,“ sagði Gunnsteinn í fréttum Stöðvar 2. „Þetta eru engin endalok fyrir okkur en við þurfum að halda áfram að berja og við þurfum að byggja hér upp og fjölga hér atvinnutækifærum. Það er alveg ljóst.“