Fyrr í vetur þegar ég var spurð hvort ég hefði áhuga á að koma á lista framfarasinna og félagshyggjufólks fyrir sveitastjórnarkosningarnar í ár varð ég nokkuð hugsi og þurfti langan tíma til á ákveða mig. Fyrir mig var þetta nokkuð stórt skref, fyrst og fremst kannski vegna þess að ég er frekar þessi prívat týpa og sækist ekki eftir athygli í tíma og ótíma. Mér fannst líka hugsunin um að fara fram gegn öðru, og oft frábæru fólki mjög skrítin en það var líklega tvennt sem ýtti mér fram að brúninni. Annars vegar það að fatta að ég er ekki í framboði gegn neinum, heldur fyrst og fremst að bjóða fram krafta mína, vonandi samfélaginu til heilla. Hins vegar var það samtalið við ömmu Rúnu og þegar ég spurði hana um hvort ég ætti að taka boðinu um að vera með á lista fyrir sveitastjórnarkosningarnar. Hún var ekki lengi að svara og sagði „Auðvitað gerir þú það Harpa, við þurfum fólk eins og þig og allir þurfa að leggja til samfélagsins“. Ég átti ekki von á svona afgerandi svari frá ömmu og í framhaldinu ákvað ég að fara eftir þessum skýru leiðbeiningum.
En talandi um þá sem á undan okkur ganga og svo þá sem á eftir okkur munu koma. Í mínum huga eru umhverfismál og hvernig við vinnum að þeim eitt af lykilverkefnum stjórnvalda í dag og á það einnig við um stjórnsýsluna heima fyrir. Það er mjög mikilvægt að við finnum leiðir til að auka vægi umhverfismála í allri stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélagsins. Við þurfum að huga að sjálfbærri þróun og verndum umhverfisins um leið og við tryggjum hagsmuni almennings. Sveitarfélagið Ölfus hefur sett fram umhverfisstefnu sem er mjög mikilvægt skref til að tryggja sjálfbæra þróun. Að mínu viti er sveitarfélagið tilbúið til að vinna að næstu skrefum eins og t.d. að koma á sérstakri umhverfisnefnd sem myndi tryggja að horft sé til verndunar umhverfisins við ákvörðunartöku á hverjum tíma. Hún ætti einnig að móta aðgerðaáætlanir til að hrinda umhverfisstefnu sveitarfélagsins í framkvæmd og stuðla að fræðslu og umræðu um umhverfismál í sveitarfélaginu.
Ég geri mér grein fyrir að umræða um umhverfismál og loftslagsbreytingar er oft erfið og þung, við nennum ekki að eiga við mál sem kalla á miklar breytingar sem snúa jafnvel beint að okkur sjálfum. Ég ætla samt að hafa trú á okkur og veit að við getum verið hugrökk, breytt nálgun okkar og hugarfari. Við þurfum bara að fara eitt skref í einu og gera okkar besta. Meira er yfirleitt hvort sem er ekki í boði.
Harpa Þ. Böðvarsdóttir
Skipar 6. sæti á lista framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfussi