Tafir hafa orðið á afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Hveradalasvæðið og eru fulltrúar sveitarfélagsins afar ósáttir að sögn Elliða Vignissonar bæjarstjóra sveitarfélagsins. Frá þessu greinir Elliði í samtali við Morgunblaðið í dag.
Um er að ræða framkvæmdir sem Hveradalir ehf. vilji ráðast í á Hveradalasvæðinu, þ.e. gerð baðlóns og bygging hótels og er fyrsti áfangi verkefnisins allt að þriggja milljarða króna fjárfesting og heildarframkvæmdin hátt í sex milljarðar.
Elliði tekur þó fram að sjálfsagt séu einhverjar málefnalegar ástæður fyrir þeim töfum sem hafa orðið en að nú sé kominn tími til að ljúka þessum hluta svo hægt sé að halda áfram.
„Við erum öll meðvituð um mikilvægi þess að fara eftir leikreglum og virða mikilvægi umsagnar og eftirlitsaðila ríkisins. Á sama hátt verður eftirlitskerfið að vera meðvitað um vald sitt og mikilvægi og koma með öllum leiðum í veg fyrir að það valdi skaða, seinki eða hindri góð verk. Nú vindum við okkur sem sagt í að klára undirbúning svo þetta stórhuga fyrirtæki geri hafið starfsemi sína hér hjá okkur. Þetta er eitt af þeim púslum sem við erum að raða upp til að sækja fram í þessu sókndjarfa samfélagi,“ sagði Elliði í samtali við Morgunblaðið.