Þór tekur á móti Skallagrím í sjöundu umferð Dominos deildarinnar í körfubolta í kvöld klukkan 19:15. Leikurinn fer fram að venju í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.
Bæði lið þrá sigur heitt þessa dagana en heimamenn í Þór unnu fyrstu þrjá leiki sína en hafa tapað þremur síðustu. Skallagrímur eru aftur á móti einungis með einn sigur eftir sex umferðir en þeir létu kanann sinn fara á dögunum og eru núna komnir með nýjan leikmann sem þeir frumsýna í kvöld.
Þorlákshafnarbúinn Grétar Ingi mun í kvöld leika á móti sínum fyrrum liðsfélögum í Þór en hann samdi við Skallagrím fyrir þetta tímabil. Hann hefur verið einn af lykilmönnum þeirra í vetur.
Þórsarar þurfa á góðum stuðningi að halda í kvöld. Það er mikilvægt fyrir liðið að ná í sigur til að nálgast toppbaráttuna og ekki síður fyrir sjálfstraustið enda erfitt að vera með marga tapleiki í röð á bakinu.
Hafnarfréttir hvetja alla til að fjölmenna á völlinn í kvöld og styðja okkar menn til sigurs. Það er góð byrjun á vikunni.