Baldur Þór Ragnarsson og Mike Cook, leikmenn Þórs í körfubolta, voru báðir dæmdir í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ. Þeir munu því ekki spila leikinn gegn Val annað kvöld í Dominos deildinni.
Eins og flestir vita þá sauð allt uppúr eftir viðureign Þórs og Keflavíkur síðastliðinn föstudag. Leikmenn Þórs voru ósáttir með að dómarar leiksins hafi ekki dæmt villu í lokasókn Þórs sem hófst þegar 13 sekúndur lifðu leiks. Mönnum þótti að brotið hafi verið á Ragnari undir körfunni sem hefði gefið Þórsurum 2 vítaskot en tíminn rann út og Keflavík vann með 1 stigi.
Baldur og Cook voru ekki sáttir og fengu báðir brottrekstrarvillur hjá dómurunum að öllum líkindum fyrir kjaftbrúk. Leikmennirnir verða síðan aftur komnir í búning gegn Skallagrím þann 24. febrúar næstkomandi.