Í dag, fimmtudag, opnaði Rósa Traustadóttir sýningu á vatnslitamyndum sínum í Gallerí undir stiganum, sýningarrými Bæjarbókasafns Ölfuss í Þorlákshöfn.
Rósa býr á Selfossi og er bókasafnsfræðingur, heilsuráðgjafi og jógakennari. Hún vinnur við þetta alltsaman, starfar á bókasafninu á Selfossi og á og rekur fyrirtækið Hugform þar sem hún býður upp á margvísleg námskeið, ráðgjöf og fræðslu. Í frítímanum fæst Rósa síðan m.a. við að mála. Fyrstu einkasýningu sína hélt Rósa í desember síðastliðnum og sýndi þá myndir í Listagjánni á bókasafninu á Selfossi.
Nú ætlar hún að leyfa Þorlákshafnarbúum og gestum þar að njóta myndanna og koma með vorið í bæinn. Innblástur í myndirnar sækir Rósa í náttúruna en litirnir fá að renna saman við hugleiðslu og jóga.