Þórsarar töpuðu í gærkvöldi fjórða leiknum í einvíginu gegn Grindavík 75-89. Grindavík vann því rimmuna 3-1.
Leikurinn var frekar jafn í fyrri hálfleik þrátt fyrir að skotnýting Þórs hafi verið mjög slök en boltinn vildi einfaldlega ekki ofan í mörgun galopnum og einföldum skotum. Staðan í hálfleik var 33-39 gestunum í vil.
Grindavík voru síðan sterkari aðilinn í seinni hálfleik þar sem þeir komust mest í 13 stiga forskot í þriðja leikhlut. Þórsarar höfðu fá svör við íslandsmeisturunum sem lönduðu á endanum sanngjörnum sigri og lið Þórs því komið í sumarfrí.
Mike Cook var stigahæstur Þórsara með 25 stig, Nemanja Sovic setti 15 og tók 15 fráköst, Ragnar Nathanaelsson skoraði 12 stig og tók einnig 16 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson skoraði 10 stig, Tómas H. Tómasson 9 og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson og Vilhjálmur Atli Björnsson skoruðu 2 stig.