Lag af væntanlegri plötu Tóna og Trix komið út – myndband

tonarogtrix_bogomil01Í lok maí kemur út plata Tóna og trix, tónlistarhóps eldri borgara í Þorlákshöfn. Platan ber sama nafn og hópurinn, Tónar og Trix og með þeim á plötunni er einvala lið íslenskra tónlistarmanna. Þar má nefna gestasöngvarana Kristjönu Stefáns, Sölku Sól, Jónas Sig, Unnstein Manuel og Bogomil Font.

Á plötunni eru kunnug íslensk dægurlög, flest í latin stíl, ásamt lögum sem hópurinn sjálfur eða meðlimir úr honum hafa samið og vonast Tónar og Trix til þess að þetta sé plata sem íslendingar og gestir þeirra hlusti á á ferðalögum sínum í sumar og syngi með.

Glæsilegir útgáfutónleikar verða haldnir í Þorlákshöfn 31. maí og í Gamla bíó þriðjudaginn 2. júní. Miðasalan er í fullum gangi en hún fer fram á midi.is, karolinafund.com og á Bókasafninu í Þorlákshöfn.

Tónar og trix hafa nú sent frá sér myndband við eitt lagið af plötunni og er það lagið „Hæ mambó“ þar sem Bogomil Font syngur með hópnum. Hér að neðan má sjá myndbandið.